Ólafur segir pappírspokana gagnslausa: „You can‘t make this shit up“

„Þegar maður heldur að báknið geti ekki toppað sig, þá kemur Mogginn inn um bréfalúguna með þessa mögnuðu umfjöllun um plastpokablæti skrifræðisins,“ segir Ólafur Hauksson, eigandi og framkvæmdastjóri almannatengslastofunnar Proforma.

Ólafur gerir forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag að umtalsefni í Facebook-hópnum Báknið burt, en í fréttinni er greint frá því að frá því að ný lög banni niðurbrjótanlega poka á afgreiðslusvæðum verslana. Mun breytingin taka gildi frá og með 3. júlí næstkomandi en lögin byggjast á tilskipunum frá ESB.

Niðurbrjótanlegir pokar, svonefndir maíspokar, hafa notið töluverðra vinsælda og eru þeir fáanlegir við afgreiðslukassa flestra verslana. Þar sem maíspokarnir innihalda í raun og veru plast, samkvæmt skilgreiningu efnafræðinga, verða þeir ekki lengur aðgengilegir við afgreiðslusvæði verslana.

Ólafur segir að það hafi ekki þurft neinn Einstein til að sjá að maíspokarnir séu bara dulbúnir plastpokar. En hann bendir einnig á að meirihluti af öllum vörum sem fáanlegar eru í verslunum eru pakkaðar inn í plast.

„En fókusinn hjá bákninu er bara á burðarpoka úr plasti (jú og sogrör). Slíkir pokar eru svo mikið þarfaþing að enginn hendir þeim á víðavangi, heldur notar undir sorpið. Fátt er betra fyrir umhverfið en góður og vandaður burðarpoki úr plasti,“ segir hann.

Hann bendir á að Krónan hafi tekið upp notkun á pappírspokum en sitt sýnist hverjum um þá. Ólafur er að minnsta kosti ekki mikill aðdáandi. Ef fer sem horfir að niðurbrjótanlegir pokar verði bannaðir hlýtur fátt annað að vera í boði fyrir verslanir en að bjóða upp á pappírspoka við afgreiðslusvæðin. Ólafur er ekki sáttur við það og færir rök fyrir því að þeir séu ekki endilega mikið betri.

„Þeir eru gagnslausir undir rusl og fara ónotaðir í endurvinnslutunnuna. Í Mogganum í dag kemur fram að pappírspokarnir séu 7 sinnum þyngri og plássfrekari en plastburðarpokarnir. Það kostar því margfalt meira að flytja þá til landsins. En bákninu er slétt sama. Pappírspokarnir tilheyra pappírspokadeild ráðuneytisins en ekki plastpokadeild þess og kemur henni því ekki við,“ segir hann.

Ólafur heldur áfram og bendir á að ekki verði lengur hægt að afhenda maíspokana á kassasvæði matvöruverslana. Samt megi hafa þá til sölu í búðunum eins og hverja aðra vöru, til dæmis beint fyrir framan kassasvæðið en ekki á kassasvæðinu.

„Eða eins og viðmælandi Moggans segir, en sú er sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, þá þarf verslunarfólk einfaldlega að beita hyggjuviti sínu til að fara framhjá þessu banni við sölu pokanna á kassasvæðinu. Það má semsagt ekki selja plast-maíspokana, en það má kaupa þá. You can't make this shit up.“