Ógnvænleg sjón blasti við Silju í nótt: „Mamma! Það er búið að kveikja í bílnum okkar!!“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um eld í bíl í Árbæ í nótt en þar reyndist hafa kviknað í bíl í Hraunbæ. Eigandi bílsins, Silja Ragnarsdóttir, greindi frá atvikinu á Twitter í dag en þar lýsir hún því hvernig hún sá bílinn loga.

„Var vakin ca 2 í nótt af dóttur minni - “Mamma! Það er búið að kveikja í bílnum okkar!!” Ha?!?! Stekk af stað og jú, bílinn logar! HVER bara gerir svona? HVER ákveður að kveikja í random bíl bara af því að?? Er svo sár, leið, í sjokki og reið,“ skrifar Silja á Twitter.

Þá greinir hún frá því í annarri færslu að hún hafi fengið þau svör frá slökkviliðinu að ljóst væri að um íkveikju væri að ræða, og því ekki hægt að skrifa málið á bilaðan rafgeymi, líkt og einhverjir höfðu lagt til.

„Vökva kastað sem fór frá húddi, yfir þakið og aftan á. Bretti og ljós líka bráðnað að aftan og skemmdirnar mun meiri en sjást á þessum myndum. Mér myndi svo sannarlega liða betur ef hægt væri að skrifa þetta á rafgeyminn,“ segir Silja enn fremur og bætir við að málið sé fjarri öllu því sem hún þekkir og hún sé í hálfgerðu losti vegna málsins.

Í samtali við DV um málið segir Silja að lögreglan hafi spurt hvort málið gæti verið tilkomið af persónulegum ástæðum. „Hvort ég ætti einhvern fyrrverandi kærasta eða eitthvað svoleiðis. En nei, það er ekkert svoleiðis,“ sagði Silja við DV.

Ekki fengust svör frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þegar svara var leitað um málið af Hringbraut í dag en í tölvupósti frá lögreglu kemur fram að verið sé að kanna hvort íkveikja í bíl tengist alvarlegri líkamsárás við Ingólfstorg í nótt en einn er nú í lífshættu eftir að hann var stunginn í kviðinn. Einnig kviknaði í bíl í Kópavogi í nótt og því ekki ljóst hvor bruninn lögregla á við.

„Lögreglan handtók einn mann í tengslum við rannsókn málsins á tíunda tímanum í morgun. Lögreglan rannsakar einnig hugsanleg tengsl málsins við bílbruna í nótt,“ segir í tilkynningu lögreglu en ekki liggur fyrir hvort maðurinn sem nú er í haldi tengist brunanum í Árbæ. 

Færslu Silju má finna hér fyrir neðan.