Nýkjörinn þingmaður vill taka á RÚV vegna KSÍ: „Þessi kúltúr var búinn til á RÚV“

Eyjólfur Ármannsson, nýr þingmaður Flokks fólksins, segir að menningin sem hafi valdið því að sex landsliðsmenn hafi ekki verið valdir í landsliðið vegna ásakana um ofbeldi hafi verið búin til hjá Ríkisútvarpinu.

Eyjólfur vakti töluverða athygli í kosningabaráttunni fyrir brandara um Pólverja sem mörgum fannst ósmekklegur.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður skrifaði langa færslu á Facebook í dag um ásakanirnar á hendur landsliðsmönnunum: „Þessar ásakanir munu koma fram í tölvupósti sem svokallaður aðgerðarhópur sendi stjórn KSÍ 27. september sl,“ segir Sigurður. „Aðgerðarhópurinn ber heitir Öfgvar, sem er réttnefni, enda stýra meðlimir hans með ofbeldisfullum hætti umræðu um ofbeldi.“

Hann segir að enginn sé óhultur fyrir ásökunum og það þurfi að trúa öllum frásögnum. „Af ótta við úthrópun og aftöku í bergmálshelli samfélagsmiðla bogna menn og brotna gefast upp og hætta að fara að reglum samfélagsins eða samtaka sem þeir stjórna.“

Sigurður segir að þetta sé á leið niður í yngri flokkana:

„Ég þekki auk þess dæmi um að knattspyrnufélag hefur útiloka unga drengi frá æfingum og leikjum vegna þess að hann eru borinn sökum um ofbeldisbrot gagnvart stúlku á sama aldri. Engin sönnun er þó um brot hans fremur hið gagnstæða,“ segir hann.

„Enginn veltir því fyrir sér hvaða afleiðingar þetta hefur haft á líf þessa unga drengs. Sem betur fer á hann góða að sem reyna að halda utan um hann. Það eru ekki allir svona heppnir.“

Eyjólfur tekur undir það sem Sigurður segir og bætir við:

„Þessi kúltúr var búinn til á RÚV. Því fyrr sem tekið verður málefnum stofnunarinnar því betra. Tjáningarfrelsið krefst þess.“