Ný lestraraðferð skilar verri lestri

Byrjendalæsi, kennsluaðferð sem þróuð var hjá Háskólanum á Akureyri og kennd er í 80 grunnskólum á Íslandi, leiðir ekki til betri árangurs nemenda á samræmdum könnunarprófum.

Þetta kemur fram í samantekt Menntamálastofnunar sem DV hefur undir höndum. Munurinn á einkunnum nemenda sem hafa lært að lesa með aðferðinni og nemendum sem ekki lærðu að lesa með aðferðinni er einn heill í einkunn á samræmdum prófum í fjórða bekk. Það er, nemendur sem lærðu að lesa með aðferðinni eru verr staddir en þeir sem það gerðu ekki. 

Fram kemur í umfjöllun DV að byrjendalæsi er námsefni fyrir nemendur í fyrsta og öðrum bekk grunnskólans og eru áttatíu grunnskólar sem kenna námsefnið og aðferðina. Þar af hafa 38 grunnskólar kennt aðferðarfræðina í fjögur ár eða lengur. Fyrstu skólarnir lögðu aðferðina fyrir nemendur árið 2005 og er því komin tíu ára reynsla á hana. Háskólinn á Akureyri þróar aðferðina, sem er samvirk kennsluaðferð þar sem lestur, ritun, hlustun, tal og sjónræn viðfangsefni eru tengd saman við lestrarkennslu.

Í samantektinni kemur fram að margir þættir í umhverfi og skólastarfi hafi áhrif á árangur nemenda og fleiri rannsóknir kunni að varpa ljósi á það, en að niðurstöðurnar í tengslum við samræmd próf séu þær að árangurinn sé ekki betri hjá nemendum sem lærðu að lesa með þessari aðferð og raunar er hann verri, að því er segir á dv.is í dag.