Niðurrifsfólkið sýnir sig

Þegar gefur á bátinn kemur á daginn hverjir gera gagn og hverjir ekki. Veiruvandinn íþyngir samfélaginu á margan hátt. Ríki og sveitarfélög missa tekjur, taka á sig mikil útgjöld og þurfa að steypa sér í miklar skuldir.

Sama gildir um flesta þætti atvinnulífsins. Almenningur finnur fyrir versnandi hag sem lýsir sér ekki síst í stórauknu atvinnuleysi og versnandi starfskjörum á vinnumarkaði. Atvinnulífið missir afl til að standa undir þeim launakostnaði sem æskilegt væri. Verðmætin verða til úti í atvinnulífinu en ekki í ráðuneytum eða á göngum háskólanna eins og sumir virðast halda.

Nú reynir á hvort samstaða næst um það í þjóðfélaginu að slá skjaldborg um Icelandair sem stendur nú fyrir hlutafjárútboði til að styrkja stöðu sína í þeim mikla mótbyr sem flugfélög eiga í um allan heim. Fáar þjóðir eiga eins mikið undir flugi og Íslendingar. Eyja úti í miðju Atlantshafi þarf á öflugu alhliða flugfélagi að halda til að landsmenn einangrist ekki.

Icelandair hefur verið hluti af grundvallarinnviðum landsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Við þessar aðstæður bregður svo við að fólk í áhrifastöðum leyfir sér að slá fram órökstuddum skætingi í garð Icelandair beinlínis til að skaða hlutafjárútboðið.

Gylfi Magnússon lýsti því yfir að ótækt væri að lífeyrissjóðir notuðu lífeyrissparnað landsmanna í svo áhættusama fjárfestingu og hlutabréfakaup í Icelandair. Skilja mátti á honum að lífeyrir landsmanna væri í hættu ef illa færi í framtíðinni!

Hann lét þess ekki getið að möguleg kaup allra lífeyrissjóða landsins á til dæmis 10 milljörðum króna í þessu útboði væri 0,19 prósent af heildareignum íslenskra lífeyrissjóða sem nema samtals 5.350 milljörðum króna.

Prófessorinn hefði frekar átt að fjalla um þann skaða sem hlytist af því að illa færi fyrir þessu félagi ef útboðið tækist ekki.

Sá skaði yrði margfaldur fyrir okkur eigendur lífeyrissjóðanna - sem er reyndar öll þjóðin.

Gylfi Magnússon kynnti óábyrga rörsýn á þetta stóra mál og reyndi að skemma fyrir. Það er mjög alvarlegt mál því hann er ekki bara einhver götustrákur heldur háskólakennari á vegum ríkisins og það sem meira er formaður stjórnar Seðlabanka Íslands.

Það verður að gera kröfur til svona embættismanna um fagleg vinnubrögð og málefnalega framgöngu.

Ef til vill er Gylfi Magnússon enn staddur á Austurvelli í byrjun árs 2009. Þá flutti hann eftirminnilega ræðu sem var honum ekki til neins sóma.