Níðst á veiku fólki

Um síðast­liðna helgi birtist yfir­lýsing frá yfir­völdum þar sem sagði: „Sund­laugum, líkams­ræktar­stöðvum, skemmti­stöðum, spila­sölum, spila­kössum og söfnum skal lokað meðan á þessum tak­mörkunum stendur.“

Í við­brögðum frá for­manni Sam­taka á­huga­fólks um spila­fíkn, Ölmu Haf­steins­dóttur, sagði m.a.:

„Það besta við þetta er að næstu mánaða­mót munu allir kassar vera lokaðir sem mun gera gæfu­mun fyrir ótal spila­fíkla og fjöl­skyldur þeirra.“

Ég hef sem aðrir lands­menn fylgst með að­dáunar­verðri bar­áttu þessara sam­taka gagn­vart ó­trú­legu sinnu­leysi yfir­valda

En nú er þetta sem­sé komið í höfn, að spila­kössum verður lokað tíma­bundið vegna smit­hættu og á­stæða til að gleðjast yfir því. En þarf ekki að í­huga orð Ölmu Haf­steins­dóttur um þann „gæfu­mun“ sem þetta hefur í för með sér fyrir „ótal spila­fíkla og fjöl­skyldur þeirra“?

Í til­efni af þessum um­mælum þarf að spyrja hvort sá gæfu­munur eigi að ráðast af kóróna­veirunni einni?

Á sá gæfu­munur ekki að taka til allra tíma? Hvers vegna yfir­leitt að opna spila­vítin á ný?

Er það ekki verðugt um­hugsunar­efni fyrir dóms­mála­ráð­herrann, sem enn hefur ekki svarað opnu bréfi fyrr­nefndra sam­taka um rekstur spila­kassa og spila­víta?

Er það ekki verðugt um­hugsunar­efni fyrir Há­skóla Ís­lands sem hagnast um á annan milljarð á ári á kostnað spila­fíkla? Er það ekki verðugt um­hugsunar­efni fyrir Rauða kross Ís­lands, Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg og SÁÁ sem í sam­einingu hagnast ár­lega um tæpan milljarð á kostnað spila­fíkla?

Er það ekki verðugt um­hugsunar­efni fyrir fjár­laga­nefnd sem horfir á eftir tæpum sjö hundruð milljónum í gjald­eyri til er­lendra aðila fyrir kaup og leigu á kössum?

Öll mættum við síðan leiða hugann að því að milli­liðir taka til sín átta hundruð og fimm­tíu milljónir upp úr vösum spila­fíkla. Þetta nefni ég til að minna á hve upp­hæðirnar, þegar saman koma, eru gríðar­lega háar enda gera þær á endanum „gæfu­mun“ í lífi margra. Annars vegar í lífi þeirra sem borga og svo einnig hinna sem fá borgað. Það skýrir margt og er kjarni vandans.

En er það ekki verðugt um­hugsunar­efni fyrir okkur öll, sem erum óðum að upp­götva mikil­vægi sam­á­byrgðar, hvort við viljum leyfa gróða­öflum að leika veikt fólk eins grátt og spila­rek­endurnir gera - á á­byrgð og í um­boði okkar allra? Er ekki ráð að hug­leiða al­vöru­þrungin orð formanns Sam­taka á­huga­fólks um spila­fíkn?

Höfundur er fyrrverandi ráðherra.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu