Netverjar undrandi á Guðna forseta: „Hvernig getum við treyst honum eftir þetta?“

14. janúar 2021
09:18
Fréttir & pistlar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birti í vikunni fallegar myndir af fálka einum sem tekinn var í fóstur á Bessastöðum fyrir rúmu ári. Greindi Guðni frá því að fálkinn hafði fengið gott atlæti á forsetasetrinu og ekki síður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Fálkinn fékk síðan frelsi eftir að hafa verið merktur og sagði Guðni frá því að síðan hefði hann fengið ábendingar frá fuglaáhugafólki um að sést hefði til fálkans víða. Þá birti Guðni glæsilegar myndir sem Sveinn Jónsson hafði tekið af fálkanum við Sandgerði og sent forsetanum.

En það var nafnagift fálkans sem að fór öfugt ofan í netverja. Fálkinn er nefnilega nefndur Kría og fannst mörgum algjörlega fráleitt að nefna fugl eftir annarri fuglategund.

Tinna Haraldsdóttir, öfgafemínisti, vakti athygli á því hversu furðulegt þetta væri á Twitter og ekki stóð á viðbrögðum. „Það þarf að koma honum frá völdum,“ sagði baráttukonan Sæborg Ninja og Tinna tók undir það: „Hvernig getum við treyst honum eftir þetta?“.

Þá spruttu upp fleiri dæmi um undarlegar nafnagiftir dýra, meðal annars hundur sem hét Kisa og kú sem kölluð var Önd. „Ég ætla að nefna allar kríur „Fálki“ eftir þetta,“ sagði annar Twitter-grínisti.

Ég segi hér enn til fróðleiks og gamans frá Kríu, fálkanum góða sem var tekinn í fóstur á Bessastöðum fyrir rúmu ári....

Posted by Forseti Íslands on Þriðjudagur, 12. janúar 2021