Netverjar misstu sig við að finna íslenskt heiti á nýju Bond-myndinni

Það má segja að netheimar hafi logað, það í góðum skilningi, þegar Kolbeinn Karl bað netverja um að þýða nýjustu kvikmyndina um ofurnjósnarann James Bond, No Time To Die, yfir á íslensku með hætti RÚV.

„Komdu með þína bestu RÚV þýðingu á No Time To Die,“ sagði Kolbeinn og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Beinþýtt ætti myndin að heita Ekki Tími Til Að Deyja, en RÚV-þýðingar sem flestir þekkja úr sjónvarpsdagskránni innihalda oft blæbrigði.

Sjálfur lagði Kolbeinn til: „Á dauða mínum átti ég von“

Oddur Ævar Gunnarsson, stjörnublaðamaður, sagði: „Kannski Í Næsta Lífi Aumingi“

Atli Fannar Bjarkason, samfélagsmiðlastjóri RÚV, kom með neglu: „Blóm og kransar afþakkaðir“

Fékk hann eigið plakat að launum:

Nína Richter sagði: „Deyrðu mig nú“

Stjörnublaðamaðurinn og leikkonan Ingunn Lára Kristjánsdóttir lagði til: „Nú má engan tíma missa“

Auglýsingagúrúinn Haukur Viðar Alfreðsson sagði: „Gálgafrestur“

Uppskar hann líka plakat:

Ritstjórinn Valur Grettisson sagði: „Eins dauði er annars brauð“

Örn Úlfar lagði til: „Maðurinn með ljáinn er seinn á ferð“

Grínarinn Stefán Vigfússon sagði: „Vant við látinn“

Árni Helgason sagði: „Slaggur að liffffa og njóta“

Ásdís sagði: „Dreptu mig ekki alveg.“

Finnur sagði: „Vant við andlátinn“

Fleiri en einn nefndu svo klassísku þýðinguna: „Glæpamaður í tjaldi“