Nafnlaus andstæðingur spilakassa styrkti SÁÁ um tíu milljónir

SÁÁ hafa loksins slitið öll tengsl sín við rekstur spilakassa Íslandsspila eftir að hafa sætt nokkurri gagnrýni fyrir þátttöku sína þar. Fólk virðist almennt mjög ánægt með ákvörðun SÁÁ og var einn raunar svo ánægður að hann styrkti samtökin um tíu milljónir eftir fréttirnar.

Formaður SÁÁ, Einar Hermannsson, greindi frá þessu í pistli í gær. „Við finnum fyrir því að gríðarleg ánægja ríkir í samfélaginu, í stjórn SÁÁ og hjá starfsfólki með útgöngu okkar og í kjölfarið hefur skapast afar jákvæð umræða um SÁÁ.  Sá hlýhugur kemur bersýnilega í ljós þegar bornir eru saman fyrsti ársfjórðungur þessa árs við fyrsta ársfjórðung 2020 en valgreiðslur hafa hækkað um tæp 60 % á milli ára. Þá veitti einstaklingur, sem kýs að halda nafnleynd, samtökunum einar  10 milljónir í styrk vegna útgöngunnar og má hér lesa brot úr bréfi hans til samtakanna," segir hann.

Maðurinn sem styrki samtökin segist hafa gert það til að heiðra minningu konunnar sinnar og eigin edrúmennsku í rúm fjörutíu ár.

Klausa úr umræddu bréfi nafnlausa velgjörðarmannsins:

„Starf SÁÁ hefur lengst af verið fjármagnað með sjálfsaflafé og stuðningi félagsmanna, almennings og áhugamanna um áfengis- og vímuefnavanda. Þar sem spilafíkn er ein tegund fíknar hefur SÁÁ nú tekið þá samfélagslegu og siðferðislegu ákvörðun að taka ekki lengur við fjármunum sem fengnir eru með hagnaði af spilakössum. Af því leiðir tekjumissir fyrir samtökin, tekjumissir sem ég vil koma til móts við með því að heiðra minningu konunnar minnar og eigin edrúmennsku í rúm fjörtíu ár. Fullur þakklætis fyrir það líf sem starf SÁÁ hefur leitt af sér mér og öðrum til góðs“