Mynd dagsins: „Svona bílar eiga ekki heima inni í borgum“

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, deildi athyglisverðri mynd á Twitter-síðu sinni um helgina. Þar má sjá samanburð á útsýni ökumanna úr tveimur bifreiðum, annars vegar Cadillac Escalade og hins vegar Honda CR-V.

„Þetta er ástæðan fyrir því að svona bílar eiga ekki heima inní borgum,“ sagði Gísli Marteinn en eins og meðfylgjandi mynd sýnir er býsna stórt blint svæði úr Escalade-bifreiðinni. Ökumaðurinn á því væntanlega erfiðara um vik að bregðast við aðsteðjandi og óvæntri hættu.

Færsla Gísla vakti talsverða athygli og spurði Árni Guðmundsson, áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, Gísla hvort það væri ekki eitthvað fleira sem hann gæti sagt almúganum hvað má og hvað má ekki í borgum. Gísli svaraði Árna fullum hálsi.

„Fer eitthvað í taugarnar á þér Árni minn að ég sé að segja skoðanir mínar hér? Algjör óþarfi fyrir þig að spila þig niður Árni, áhrifamaður í XD og skoðanir þínar endurspegla skoðanir hans vel. En ég tel semsagt að risastórir trukkar séu hættulegir lífi barnanna í borginni.“