Mynd dagsins: Guðmundur Felix hafði ástæðu til að fagna

Guðmundur Felix Grétarsson, sem nýlega gekk undir handaágræðslu á sjúkrahúsi í Lyon í Frakklandi hafði tilefni til að fagna í dag.

„Í dag eru nákvæmlega sex vikur frá ágræðslunni. Það eru ákveðin tímamót því það er tíminn sem það tekur sinar og vöðva að gróa. Ég er formlega búinn að sameinast gjafa mínum,“ sagði Guðmundur og bætti við að þetta þýddi bara eitt. Nú ætti hann skilið að fá sér pönnuköku.

Guðmundur Felix hefur verið á góðum batavegi eftir aðgerðina og á dögunum vinkaði hann fylgjendum sínum á Instagram. Þá lýsti hann síðast í gær þeim tilfinningum sem bærðust um í brjósti hans þegar hann sá mynd af sér með handleggi í fyrsta skipti í 23 ár.

„Þegar þú hefur verið án hand­leggja í 23 ár, að sjá svona mynd af sjálfum sér hefur meiri á­hrif en ég get nokkurn tímann lýst,“ sagði hann meðal annars.