Mynd dagsins: Folaldasnitsel í Krónunni á síðasta séns – „Sumt á bara ekki að selja“

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, birti mynd á Facebook-síðu sinni í gær af folaldasnitseli í ónefndri Krónuverslun.

Krónan hefur í gegnum tíðina boðið vörur sem komnar eru á síðasta snúning til sölu á sérstöku tilboðsverði.

„Matarsóun er eitt mest aðkallandi vandamál heimsins um þessar mundir og við viljum leggja hönd á plóg.  Þess vegna hendum við ekki vörum í skemmdum umbúðum eða sem hafa best-fyrir að baki.  Ef við metum það sem svo að vörurnar séu öruggar til neyslu bjóðum við þér að kaupa þær á ríflegum afslætti.  Gott fyrir veskið, geggjað fyrir umhverfið,“ segir á heimasíðu Krónunnar.

Sveinn Hjörtur segist fagna því að Krónan nýti vörurnar með þessum hætti og stuðli þannig að minni matarsóun. Hann segir aftur á móti á Facebook-síðu sinni að þetta tiltekna snitsel hafi verið komið aðeins yfir „síðasta séns“.

„Folaldasnitselið sem var í kæliborðinu undir "Síðasti séns," stökk nánast sjálft af stað. Sumt á bara ekki að selja,“ segir hann og bætir við að þarna hljóti einhver mistök að hafa átt sér stað og bætir við að snitselið hafi lyktað.

Einn segir í athugasemd að þetta virðist blessunarlega vera undantekning. „Ég hef oft kroppað upp úr þessari körfu og aldrei lent í þessu. Ég vona að þeir bæti vinnubrögðin því hugmyndin er frábær.“