Mynd dagsins: Fer hitinn í 27 stig á morgun? „Þetta er ótrúleg tala“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur heldur úti veðurvefnum Blika.is. Í nýrri færslu á Facebook-síðu Bliku kemur fram að viðbúið sé að mjög hlýtt verði í veðri á morgun.

„Spáin á morgun fimmtudag. Með snarpri SV-áttinni og jafnvel stormur sums staðar, berst mjög hlýtt loft austur yfir landið. Spákort ECMWF af Brunni Veðurstofunnar sem hér fylgir og gildir kl. 18 á morgun sýnir tvennt sem er eftirtektarvert,“ segir Einar.

Annað er það að hitinn í um 1.300 metra hæð verður um 15 gráður yfir Austurlandi. „Þetta er ótrúleg tala, í hitabylgjum hér á landi má sjá 12-13°C sem dæmigerð gildi. Höfum hugfast að loftið getur hlýnað um 10 stig ef það nær að streyma niður til sjávarmáls og jafnvel meira við bestu skilyrði,“ segir hann.

Hins vegar sýna línurnar á kortinu hér að neðan þykkt. „Innsti hringurinn er 564 dekametrar. Vísar á mjög hlýjan loftmassa. Það er ótrúlegt að þykktin nái þessum hæðum í raun. Hún fer nánast árlega einhvers staðar landinu rétt yfir 560 dm, en sárasjaldan yfir 563 og þá gjarnan í tengslum við hitamet af einhverju tagi,“ segir hann.

Hann bendir á að hæsti hitinn í sumar, 25 gráður, hafi mælst á Egilsstöðum í gær. „Spurning hvort hann slá e.t.v. í 27 stig á Austfjörðum á morgun, með allhvössum og heitum blæstrinum?“

Meðfylgjandi er myndin sem birtist á Facebook-síðu Bliku í dag.