Mörg smit í samfélaginu og erfiðara að eiga við faraldurinn núna

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir að það sé of snemmt að segja til um hvort fjöldi smita í gær hafi áhrif á smitstuðulinn, það er hversu marga einn smitar frá sér, hér á landi en alls greindust tíu með veiruna í gær, helmingi færri en deginum áður.

Í samtali við RÚV segir Thor að hann búist við að fjöldi smita verði í kringum tuttugu næstu daga en smitstuðullinn er nú 1,5 samkvæmt spálíkani HÍ um þróun faraldursins. Thor hefur áður sagt að mikilvægt sé að halda smitstuðlinum fyrir neðan einn til að ná tökum á faraldrinum.

„Maður þarf að sjá þróunina yfir nokkra daga, hvort hann er jafnt og þétt að fara upp eða jafnt og þétt að fara niður,“ sagði Thor en hann sagði næstu daga skera úr um hvort breytingar hafi orðið á þróun faraldursins.

Þá sagði hann enn fremur að það væru miklar sveiflur í faraldrinum núna vegna lítilla hópsýkinga sem komið hafa upp víða en í þeim tilfellum hefur fólk náð að smita marga. Hann segir að erfiðara sé að eiga við faraldurinn núna vegna sveiflanna.

„Við þurfum að bíða aðeins og sjá til, við töluðum um að á fimmtudaginn væri kannski komin skýr mynd á þetta. Kannski tekst að koma í veg fyrir þessa bylgju jafnvel. En ég er ekkert bjartsýnn á það þannig, ég held að það sé talsvert af smitum þarna úti,“ sagði Thor.