Mögnuð frásögn Gylfa Þórs: „Hún sparkaði mér í gang og sparkaði mér út“

Gylfi Þór Þorsteinsson vakti athygli margra fyrir vaska framgöngu í kórónuveirufaraldrinum. Gylfi Þór skipulagði þá vinnu fyrir sóttvarnarhúsin en hann starfar í dag sem aðgerðarstjóri við móttöku flóttamanna.

Gylfi var gestur Felix Bergssonar í þættinum Fram og til baka á Rás 2 þar sem hann ræddi ýmis áföll sem settu mark sitt á líf hans.

Þegar Gylfi var 26 ára með mánaðargamla dóttur árið 1996 var uppeldismóður hans myrt af bróður sínum. Þetta var fyrsta barn Gylfa og fyrsta barnabarn móður hans sem hlakkaði mikið til að takast á við móðurhlutverkið.

„Þegar það verða sakamál þar sem andlát er, þá lifir það miklu lengur en kannski hið almenna andlát, ef svo má að orði komast,“ sagði hann í þættinum.

Það var svo ári síðar að sonur Gylfa fæddist tólf vikum fyrir tímann. Syni hans var vart hugað líf og þá var eiginkona hans illa haldin eftir fæðinguna. Gylfi var þarna í þeim sporum að vera með eins árs barn, fárveika eiginkonu og son sem fæddist tólf vikum fyrir tímann. Sonurinn braggaðist þó vel og ber hann engin merki þess að hafa verið fyrirburi.

Gylfi Þór varð svo fyrir frekari áföllum árin 2013 og 2014 þegar hann missti vinnuna sem framkvæmdastjóri mbl.is. Það var honum áfall að standa uppi atvinnulaus eftir að hafa sinnt starfi sem hann var sannfærður um að hann yrði í til æviloka. Hjónabandinu hans lauk svo skömmu síðar og segir hann að það hafi tekið langan tíma að vinna úr þeim málum.

Þar með er ekki öll sagan sögð því á næstu mánuðum missti hann föður sinn, föðursystur, ömmu og blóðmóður, þrjá hunda auk þess sem hann missti húsið. „Þarna stóð ég uppi nánast fjölskyldulaus, heimilislaus og atvinnulaus,“ segir hann í viðtalinu við Felix.

Gylfi ákvað á þessum tímapunkti að leita sér hjálpar og valdi hann sér sálfræðing af handahófi sem hjálpaði honum mikið.

„Þar var kona sem heitir Ragna, ég fer til hennar og bara skelli á borðið öllum mínum áföllum, bugaður,“ segir hann meðal annars og bætir við að hún hafi ekki vorkennt honum neitt. Eftir að hafa farið til Rögnu síðu sinnum sagði hún að hann þyrfti ekki að koma lengur til hennar. Hann þyrfti að fara út og gera eitthvað.

„Aftur sparkaði hún mér í gang og sparkaði mér út,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið algjörlega það sem hann þurfti.

Viðtalið við Gylfa Þór.