Mikill er máttur Morgunblaðsins

„Hlutabréfamarkaðurinn íslenski tók nokkuð skarpa dýfu í gærmorgun, fyrsta dag viðskipta eftir að Morgunblaðið birti skoðanakönnun þar sem vinstrisveifla var greinileg og ríkisstjórnin hafði misst meirihluta sinn.“
Svo hljóðar fyrsta setningin í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Já, frétt Morgunblaðsins af vinstri sveiflu í skoðanakönnun á Íslandi hreyfir markaði og skelfir fjárfesta. Og ekki bara á Íslandi, nei, þegar Mogginn, sem gefinn er út í tíu þúsund eintökum hér á landinu bláa, varar við hættu á vinstri stjórn skjálfa alþjóðlegir fjárfestar á beinunum, hlutabréfaverð í Asíu hríðlækkar og um allan heim titra markaðir.
Þetta er alla vega niðurstaða höfundar Staksteina, þess spakvitra manns sem ávallt nálgast hlutina af yfirvegun og raunsæi. Ekki er inni í myndinni að titringur á alþjóðlegum mörkuðum, ekki síst í Asíu, stafi af yfirvofandi gjaldþroti risastórs kínversks fasteignafyrirtækis, eins og flestir greinendur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum telja, og að sá titringur hafi áhrif hér á landi. Nei, Staksteinar eru alveg með þetta. Vitanlega er það vinstri sveifla á Íslandi, og þá ekki síst fréttaflutningur um þá sveiflu úr Hádegismóum, sem skelfir fjárfesta um víða veröld.
Nú bíður fjármálaheimurinn í New York, Hong Kong, Frankfurt, París og London í ofvæni eftir niðurstöðum þingkosninganna hér á landi á laugardaginn og þó fyrst og fremst eftir því að Morgunblaðið greini frá úrslitunum, útskýri hvað þau þýða og upplýsi hvort ríkisstjórnin sé fallin.
- Ólafur Arnarson