Miðjustjórn í borginni sníður öfgana af

Flest bendir til þess að mynduð verði miðjustjórn í borginni með Samfylkingu, Framsókn, Viðreisn og Pírötum. Þessir fjórir flokkar eiga það sammerkt að vera allir miðjuflokkar, Viðreisn þó miðju-hægriflokkur.

Sjálfstæðismenn og Morgunblaðið hafa hamast á því undanfarna daga að valið hjá Framsókn standi um að taka þátt í myndun meirihluta til hægri eða vinstri og þá skilgreina þeir miðjuflokkana sem vinstri flokka. Hér er um hreina endaleysu að ræða enda fer ekki á milli mála hvaða flokkar eru til vinstri af þeim sem sitja í borgarstjórn, hverjir eru miðjuflokkar og hverjir til hægri.

Til að rifja þetta upp, þá eru staðreyndirnar þessar: Vinstri flokkar eru Sósíalistaflokkur Íslands, Vinstri græn og Flokkur fólksins. Hægri flokkar eru Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn (sem núna fékk engan fulltrúa kjörinn í borgarstjórn). Miðjuflokkar eru: Samfylking, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn sem er miðju-hægri flokkur.

Það er hinsvegar óhætt að benda á að ríkisstjórn sem er undir forsæti formanns Vinstri grænna getur ekki annað en talist vera vinstri stjórn enda er stjórnin kennd við leiðtoga sósíalista, Katrínu Jakobsdóttur. Í þeirri stjórn unir Sjálfstæðisflokkurinn sér vel sem burðarás og baðar sig þar upp úr valdastöðum alla daga. Sjálfstæðismenn skyldu því fara varlega í að reyna að nota vinstri arm stjórnmálanna sem grýlu í umræðunni!

Undanfarna daga hafa sjálfstæðismenn hrópað í örvæntingu sinni um að meirihluta borgarstjórnar hafi verið hafnað í kosningunum. Skoðum staðreyndir. Flokkarnir þrír sem fylgjast að í meirihlutaviðræðum, Samfylking, Viðreisn og Píratar, fengu stuðning 37 prósenta kjósenda í kosningunum og eru því langstærsta aflið sem leitar eftir myndun nýs meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 24 prósent greiddra atkvæða, sem er það minnsta sem hann hefur hlotið í sögunni.

Niðurstaða kosninganna er því síður en svo ákall um aðkomu Sjálfstæðisflokksins að stjórn borgarinnar. Þvert á móti. Framsóknarflokkurinn margfaldaði fylgi sitt og hlaut stuðning 17 prósenta sem ekki er hægt að túlka með öðrum hætti en þeim að kjósendur vilji að Framsókn komi að stjórn borgarinnar.

Út á það ganga einmitt fyrirhugaðar viðræður flokkanna þriggja og Framsóknar sem nú eru að hefjast. Á bak við þá flokka er stuðningur meirihluta kjósenda, 54 prósent.

Örlög Sjálfstæðisflokksins næstu fjögur árin virðast því vera ráðin. Flokkurinn verður áfram valdalaus í minnihluta í Reykjavíkurborg, ásamt vinstri flokkunum VG, Sósíalistum og Flokki fólksins. Verkefni þeirra liggur skýrt fyrir. Þeirra hlutverk er að veita nýju miðjustjórninni verðugt aðhald. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar orðinn vel þjálfaður í því hlutverki enda hefur hann starfað í minnihluta í Reykjavík meira og minna frá árinu 1994.

- Ólafur Arnarson