„Meiri­hluti fólks myndi kveikja í húsinu sínu ef það væri sagt virka vel gegn veirunni“

Rit­höfundurinn Hall­dór Armand segir það ekki koma sér á ó­vart að sjá fregnir af mikilli and­stöðu við nú­verandi venju­bundna opnunar­tíma skemmti­staða. Hall­dór ræðir málið á Twitter.

Til­efnið eru fréttir af því að 63,7 prósent lands­manna vilji að skemmti­stöðum sé lokað fyrr á næturna. Þetta kom fram í skoðana­könnun sem Maskína fram­kvæmdi fyrir Stöð 2.

Hall­dór segir að það komi sér ekki á ó­vart. „Kemur ekki á ó­vart sjá nýjustu fréttir af al­mennri djammand­stöðu. Svona sigrar óttinn. Erum and­lega á þeim stað að meiri­hluti fólks myndi kveikja í húsinu sínu ef það væri sagt virka vel gegn veirunni,“ skrifar Hall­dór.

Þá vísar hann næst í pistil sinn sem vakti gríðar­lega at­hygli í júní. Pistillinn ber nafnið „Ekkert er úti­lokað í leik­skóla­landi“ og ræðir Hall­dór þar orð­ræðuna um skemmtana­lífið í landinu.

„Til hvers er djammið? Af lýsingum lög­reglunnar að dæma gæti maður haldið að þetta sé fyrst og fremst vett­vangur fyrir fólk til þess að láta lim­lesta sig og mis­nota,“ skrifar Hall­dór.