Matti Matt opnar sig um peninga­vand­ræði: Lág­punkturinn þegar bíllinn var sóttur í nýju vinnuna

Matthías Freyr Matthíasson segir fjár­mála­læsi vera á­bóta­vant í ís­lenska skóla­kerfinu en það þekkir hann af eigin reynslu. „Ég hef yfir­leitt skammast mín að ræða þessi mál­efni opin­ber­lega en nú er ég hættur að skammast mín,“ skrifar Matti á Twitter.

„Ég hafði yfir­leitt alltaf mjög tak­markaðan skilning á fjár­málum og kunni illa með peninga að fara.“ Hann hafi ekki lært neitt um slíka hluti á skóla­göngunni. „Ég var yfir­leitt í ein­hvers­konar fjár­mála­legu veseni og í reddingum hingað og þangað, með yfir­drætti hér og þar eða sló fólk um lán hingað og þangað.“

Hlutirnir hafi breyst á tví­tugs­aldrinum þegar Matta á­skotnuðust tölu­verðir fjár­munir. „Síðan líður tíminn og ég bý mér og fjöllunni heimili og á yfir­leitt smá auk­reitis og litlar skuldir, hús­næði og bíll. Gátum farið er­lendis og næ­serí.“ Síðan hafi hrunið komið og sett stórt strik í reikninginn.

Hætti að svara í símann

„Eftir næstum þriggja ára at­vinnu­leysi, skilnað og alls­konar er ég orðinn Ólafur Ragnar úr Vöktunum. Sí­fellt að reyna að koma mér út úr veseni með ein­hverjum reddingum þar sem ,,bankinn var með eitt­hvað vesen í kerfinu"“

Þar sem tryggja þurfti mat á borðið voru skuldir ekki greiddar og hlóðust upp eins og ný­fallinn snjór í desember á Norður­landi. „Alls staðar kom ég ein­hvern veginn að lokuðum dyrum. Þannig að ég lokaði augunum fyrir vanda­málunum,“ út­skýrir Matti sem hætti að svara tölvu­póstum og hringingum.

Bílinn tekinn í nýju vinnunni

„Lág­punkturinn var þegar ég var til­tölu­lega ný­byrjaður í nýrri vinnu og hringt var í mig, inn­heimtu­fyrir­tæki var komið að sækja bílinn minn. Í vinnuna. Núna. Þurfti því að fara út og sækja draslið í bílinn og labba með það inn á skrif­stofuna og út­skýra hvað hefði skeð.“

Matti kveðst skilja vel að bíllinn hafi verið tekinn þar sem lánin voru ó­greidd. „Ég lifði lengi í óttanum. Ég lifði lengi í skömminni yfir því að geta ekki náð tökum á þessum að­stæðum mínum.“

Allar leiðir voru reyndar en ekkert gekk. „Ég var ekki í ein­hverju fjár­mála­braski. Bara ó­sköp venju­legur Ís­lendingur með ekkert vit á fjár­málum sem hafði verið at­vinnu­laus í lengri tíma.“


Skilar skömminni

Eftir að hafa lifað við þessar að­stæður í mörg ár breyttust að­stæður Matta. „Ég kynnist nýrri konu og við sköpum okkur nýtt líf. Hún kenndi mér margt varðandi peninga sem og aukinn þroski kom. Ég braut odd af of­læti mínu og sýndi van­mátt minn og fór til Um­boðs­manns skuldara. Við þá að­gerð snar­löguðust hlutirnir með að­gerðum sem þar var farið í.“

Matti kveðst loks hafa fengið and­rými. „Það gerðist allt vegna þess að ég sýndi virki­lega loksins van­mátt minn gagn­vart að­stæðunum. Ef þú ert á þeim stað að finnast þú ekki komast neitt á­fram, þá er það besta sem þú getur gert er að leita að­stoðar. Sama um hvað ræðir.“

Það hafi bjargað geð­heilsunni og fram­tíðar­sýninni. „Það eru nokkur ár síðan ég greip til að­gerða en vegna skömm ekki þorað að ræða það.“