Marta María: „Ó­þolandi að freki krakkinn taki stjórnina“

„Það þarf náttúr­lega ekki að nefna það, en það er ó­þolandi að freki krakkinn taki stjórnina á lífinu,“ segir Marta María Jónas­dóttir, um­sjónar­kona Smart­landsins, í leiðara í Jóla­blaði Morgun­blaðsins í dag.

Marta þykir býsna orð­heppin en í pistli sínum gerir hún jólin að um­tals­efni og veiruna sem hefur litað líf okkar allra veru­lega á þessu ári. Eftir ár sem ein­kenndist af veikindum, ótta, bjargar­leysi, von­leysi, leiðindum, von­brigðum og reiði koma þó alltaf jól.

„Orku­stig lands­manna er kannski ör­lítið lægra en oft áður enda margt í um­hverfinu sem hefur á­hrif á það. Fólk sem er til dæmis ekki vant því að vinna heima hjá sér getur orðið skrýtið þegar það fer ekki út úr húsi og hittir fáa,“ segir hún og bætir við að þeir sem hafa þurft að fara í sótt­kví viti að lífið verður svo­lítið brenglað þegar ekki er hægt að gera það sem áður var hægt að gera.

„Það er á­huga­vert að sjá hvernig fólki hættir til að haga sér þegar það hefur ekki fulla stjórn á til­verunni. Það verður til dæmis meira á­berandi á sam­fé­lags­miðlum hver er „freki karlinn“ eða „freki krakkinn“ sem er vanur að fá sitt og hverjir mæta lífinu með æðru­leysi,“ segir Marta sem segist hafa heyrt á það minnst hjá sér­fræðingi að fólk væri í barna­sjálfinu sínu á þessum veiru­tímum. Það gerði það að verkum að það væru litlu við sem réðum för.

„Þessi pæling hitti mig í hjarta­stað því ég hef lagt tölu­vert á mig til þess að vera ekki átta ára Marta María Jónas­dóttir alla daga (lesist Emma öfug­snúna). Eitt­hvað úr æskunni getur truflað okkur það mikið á full­orðins­árum að við getum orðið al­ger­lega ó­þolandi sem full­orðin. Það getur gerst án þess að við gerum okkur grein fyrir því,“ segir Marta sem kannast sjálf við þetta að eigin sögn.

„Ég datt til dæmis alltaf í þessa átta ára ef það var ekki allt eftir mínu höfði, sem getur brotist út í stjórn­lausri frekju. Þessi mót­vindur var ekki alltaf appel­sínu­gul eða rauð við­vörun. Hún hafði kannski varla lit því hún var svo smá­vægi­leg en varð að risa­stormi í hausnum þegar þessi átta ára var við stjórn­völinn. Það þarf náttúr­lega ekki að nefna það, en það er ó­þolandi að freki krakkinn taki stjórnina á lífinu.“

Marta María segir að það sé í raun alveg sama hvað gerist í lífi fólks, það eru alltaf til leiðir til að fara í gegnum hluti.

„Líf okkar hér í myrkri og kulda heldur á­fram þótt það sé kannski ör­lítið öðru­vísi en áður og jólin koma þótt þau verði kannski með breyttu sniði. Ég mæli með því að við reynum að sjá það já­kvæða í þessari veiru og lærum að vera þakk­lát fyrir það sem er gott í lífi okkar. Restina geta fag­menn hjálpað okkur að díla við (ef við nennum því),“ segir Marta sem endar pistilinn á að óska les­endum gleði­legra jóla.