Marta María: Ís­lendingar kunna sig ekki – „Vatnið skvettist yfir hárið á mér og öllum konunum“

Marta María Jónas­dóttir, um­sjónar­kona Smart­landsins á mbl.is, segir að það hafi verið ljúft og gott að komast heim eftir að hafa farið í ferða­lag um Ís­land á­samt fjöl­skyldu sinni. Marta María segir frá þessu í skemmti­legum pistli sem birtist í Morgun­blaðinu í dag.

„Ein­hverjir bundu vonir við að sumar­fríið yrði gott. Fólk myndi kynnast landinu sínu upp á nýtt og upp­götva heillandi staði. Það voru þó ekki allir sem upp­lifðu ferða­lögin innan­lands sem ein­hverja sælu. Það eru nefni­lega allt of margir Ís­lendingar sem kunna sig ekki,“ segir Marta sem bætir við að hún geti skrifað heila bók um takt­leysi landa sinna á ferða­lögum eftir að hafa ferðast um Ís­land í sumar­fríinu.

„En ætli það sé ekki best fyrir mig að setja fókusinn á hið já­kvæða í staðinn fyrir að pirra mig á mið­aldra karlinum sem á­kvað að hoppa ofan í Kross­nes­laug þannig að vatnið skvettist yfir hárið á mér og öllum konunum í lauginni. Á­stæða þess að ég vildi ekki þvo á mér hárið var að það eru bara tvær sturtur þarna og ég nennti ekki að láta tíu konur í bið­röð bíða eftir að ég setti í mig sjampó og hár­næringu. Nú eða pirra mig á konunni sem er svo stjórn­söm að hún æpti á kyn­systur sína á veitinga­stað og bað hana að hlæja ekki svona hátt.“

Marta María segir að hún hafi svo tekið upp á því að leigja hús­bíl sem reyndist vera al­gjört „þrota­bú“ eins og hún orðar það, enda keyrður 170 þúsund kíló­metra.

„Þegar hús­bíllinn var farinn að líta út eins og hamstra­búr að innan, eftir að múslí datt úr hillu sem átti að vera lokuð, og dreifðist yfir allt gólfið komumst við að þeirri niður­stöðu að þetta væri orðið á­gætt. Svo var líka farið að loga ljós í mæla­borðinu sem boðar aldrei gott. Niður­staðan var á þessum tíma­punkti að við værum lík­lega komin með al­gert hús­bíla­ó­geð. Það var því bara frekar ljúft og gott að komast aftur heim til sín þar sem enginn öskrar á neinn af því hann hlær of hátt og enginn skvettir vatni á hárið á þér.“

Segir Marta að heima við sé hægt að njóta þess að bera á sig and­lits­maska, setja á sig mörg lög af húð­dropum, lesa bækur í friði, elda góðan mat og láta sig dreyma um geggjuð föt á er­lendum tísku­síðum.

„Svo getur þú tekið til í fata­skápnum þínum og straujað allt sem hægt er að strauja og hlustað á hljóð­bók á meðan, hringt í vini, fært til hús­gögn, málað einn vegg eða tvo og skipu­lagt næsta al­þjóð­lega frí þar sem mið­aldra menn með gesta­læti, illa upp alin börn og vesen verður ekki með í för!“