Margrét: Ekki eðlilegt að fólk komi í verslun með troðfullt veski af seðlum

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, er þeirrar skoðunar að stjórnvöld þurfi að setja þak á greiðslur með reiðufé. Þetta kemur fram í pistli Margrétar í Fréttablaðinu um helgina.

„Lífið er stöðug þróun og það sem þykir sjálfsagt í dag þykir oft úrelt á morgun. Mín kynslóð miðlaði verðmætum með ávísunum og víxlum sem unga kynslóðin hristir höfuðið yfir, enda rafrænar lausnir þeirra heimur,“ segir Margrét í pistlinum.

Hún bendir á að í dag séu um 10% af útgjöldum heimila greidd með reiðufé og ljóst að reiðufé verður áfram notað. Hún sér ekkert athugavert við það, enda þykir mörgum gott að eiga seðla í veskinu til að afgreiða smáinnkaup.

„Það er hins vegar löngu tímabært að settar verði ríkar hömlur á notkun reiðufjár til að sporna við svartri atvinnustarfsemi – enda fráleitt að verslun sem atvinnugrein sé notuð sem þvottastöð fyrir svarta hagkerfið. Það getur enginn talið eðlilega viðskiptahætti að koma í verslanir með úttroðin seðlaveski og versla fyrir milljónir, enda frábiður verslunin sér að aðstoða þá sem vilja komast hjá skattheimtu við að koma svörtum peningum í umferð,“ segir Margrét.

Hún segir að verslunin þurfi aðstoð löggjafans til að setja þak á greiðslur með reiðufé þannig að allar greiðslur til dæmis yfir 100 þúsund krónur fari fram með rafrænum hætti eða millifærslu.

„Fyrir skömmu eignaðist verslunin bandamann í þessu máli þegar lögreglan kallaði eftir því hvort að taka ætti seðla úr umferð hér á landi til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Fyrsta skrefið mætti vera að taka stóru seðlana úr umferð, því það er auðvelt að kaupa vörur fyrir milljón og greiða með 10.000 króna seðlum, en það myndi enginn heilvita maður gera ef þá upphæð þyrfti að reiða fram með 1.000 króna seðlum,“ segir Margrét sem vill að þrengt verði að svarta hagkerfinu.

„Hættum meðvirkni með skattsvikum og gerum háar greiðslur með reiðufé tortryggilegar – enda yfirgnæfandi líkur á að rík innistæða sé fyrir þeirri tortryggni!“