Máni leggur línurnar að breiðfylkingu vinstrimanna: „Nú er lag“

„Hér á landi hefur aldrei tekist að búa til stóran félagshyggjuflokk. Vandamálið er að á einhvern óskiljanlegan hátt heldur félagshyggjufólk alltaf að það sé enginn flokkur eða mál nógu góð nema að þau séu í forsvari fyrir þau. Auðvitað er þetta óþolandi ástand,“ segir fjölmiðlamaðurinn Máni Pétursson í ítarlegri færslu á Facebook. „Hægri kratar eins og ég erum algerlega heimilslausir og hafa verið í fleiri ár. Vinstri kratar vita ekkert hvað þeir eiga að gera.“

Máni segir rétt hjá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, að frjálslyndir félagshyggjuflokkar þyrftu að skoða sín mál. „Ef hér á einhvern tímann að vera til stór félagshyggjuflokkur þarf hann að rúma alla og fólk verður að láta af þessu kjaftæði og sjálfhverfu um sitt eigið mikilvægi. Ef einhver ætti að skilja að starf stjórnmálamannsins er ekkert annað en þjónusta við samfélagið er það félagshyggjufólk.“

Hann bendir á að Katrín Jakobsdóttir hafi í alvöru yfir 25 þúsund atkvæði, vissulega séu fleiri en hún í VG: „En við skulum ekkert vera að ljúga að okkur Katrín er stjórnmálamaður sem kemur kannski einu sinni upp á hverri öld og keyrir þetta VG partý áfram. Það voru í alvöru 25 þúsund manns sem tilheyra vinstrivægnum sem kusu VG þrátt fyrir að það gæti þýtt að Sjálfstæðisflokkurinn yrði aftur við völd. Það segir ýmislegt um þennan foringja.“

Með komu Sósíalista sé kominn flokkur sem er vinstra megin við VG og Samfylkinguna. „En því hlutverki gengdi einmitt VG í upphafi þegar Samfó fannst rosalega góð hugmynd að vera í NATO og að þjóðkirkjan væri bara fín hugmynd. Eina ágreiningsmál flokkana Samfó og VG er ESB og það verður ekkert gert í því fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu og allt fólk yfir meðalgreind getur ekki verið á móti því.“

Þegar Samfylkingin hafi verið stofnuð rétt fyrir aldamót þá hafi allir viljað vera leiðtoginn og ágreiningsmálin voru mun fleiri en þau eru í dag.

„En nú er lag. Ég hef ekki enn hitt ungt fólk úr Samfylkingunni sem eru ekki aðdáendur Katrínar Jakobsdóttur. Sterki leiðtoginn er til staðar og það er ekki víst að hann komi aftur í bráð.“

Máni segir að Katrín og Logi ættu að fá sér kaffibolla áður en hún myndar nýja stjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

„Þetta gæti þýtt að við fáum stjórn með Sjálfstæðisflokk, Framsókn og viðreisn en það gætu orðið skrýtin 4 ár en þau er hægt að nota til að berja hópinn saman og bjóða kjósendum uppá alvöru valkost í næstu kosningum. Alvöru breiðfylking félagshyggjufólks sem rúmar bæði vinstri og hægri krata undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.“