Magnús: Slökkt á síma fjölskyldunnar í morgun – „Ég er yfir­bugaður af sorg og reiði“

16. september 2020
08:09
Fréttir & pistlar

„Ég er yfir­bugaður af sorg og reiði í garð kerfisins og stjórn­mála­manna,“ segir Magnús Davíð Norð­dahl, lög­maður egypsku fjöl­skyldunnar sem send verður úr landi nú í morguns­árið.

Kæru­nefnd hafnaði í gær frestun á brott­vísun fjöl­skyldunnar og þar með síðasti mögu­leikinn, sam­kvæmt lög­form­legum leiðum, á að fjöl­skyldan fengi að vera hér á­fram.

Magnús skrifaði færslu á Face­book-síðu sína í gær­kvöldi þar sem hann lýsti ó­á­nægju sinni.

„Á síðustu árum hafa ráð­herrar og þing­menn í­trekað stigið inn í ein­stök mál hælis­leit­enda og beitt sér. Má þar í dæma­skyni nema mál ungu stúlkunnar Za­inab Safari úr Haga­skóla og ekki síður mál Sarwari feðganna. Reglu­gerðum og lögum hefur verið breytt í kringum til­teknar fjöl­skyldur og aðrir í sam­bæri­legri stöðu notið góðs af,“ segir Magnús í færslu sinni.

Magnús var gestur Morgunút­varpsins á Rás 2 í morgun þar sem hann sagðist ekkert hafa heyrt í fjöl­skyldunni í morgun. Til hafi staðið að sækja hana á heimili hennar klukkan hálf sex í morgun. Henni yrði svo flogið til Amsterdam og þaðan til Kaíró. Magnús sagði að slökkt hefði verið á síma fjöl­skyldunnar í morgun.

Magnús sagði í færslu sinni í gær­kvöld að öll um­mæli for­sætis­ráð­herra, Katrínar Jakobs­dóttur, og barna­mála­ráð­herrans Ás­mundar Einars Daða­sonar um skort á heimildum til að beita sér í málinu sé „aumkunar­verð til­raun til að varpa frá sér á­byrgð“ og í sann­leika sagt hrein klár af­neitun á börnunum sem á náðir þeirra leituðu.

„Ég geri ráð fyrir að aðrir og "mikil­vægari" hags­munir hafi ráðið för og að ráð­herrunum þyki vænt um sína stóla. Þó að mála­flokkurinn heyri undir dóms­mála­ráð­herra eru Katrín og Ás­mundur hluti af þeirri heild sem ríkis­stjórnin er.“

Magnús vill halda því til haga að heild­stætt og sjálf­stætt mat hafi aldrei farið fram á hags­munum barnanna, hvorki í upp­hafi né á síðari stigum þegar þau höfðu dvalið hér í eins langan tíma og raun ber vitni. Hann segir að um sé að ræða klárt brot á barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og 76. gr. stjórnar­skrárinnar.

„Að svo­kallaður barna­mála­ráð­herra hafi látið sér nægja að spyrja dóms­mála­ráð­herra hvort gætt hafi verið að hags­munum barnanna er mér fyrir­munað að skilja. Af hverju kannaði ráð­herrann ekki málið og dró sínar eigin á­lyktanir? Var hann kannski of upp­tekinn við að koma á kerfis- og laga­breytingum í mál­efnum barna?“

Magnús segir að mál egypsku fjöl­skyldunnar verði í heild sinni borið undir dóm­stóla óháð þeirri brott­vísun sem fyrir­huguð er. Það rang­læti sem þau hafi sætt verði að leið­rétta.

„Ég vona að fjöl­skyldan verði örugg og að ég geti á ein­hverjum tíma­punkti í fram­tíðinni hitt þau aftur og borið þeim þau tíðindi að hér megi þau búa. Þó kerfið og stjórn­völd hafi brugðist þá hefur al­menningur látið í sér heyra og það er mikil­vægara en nokkru sinni að við­halda um­ræðunni og þeim þrýstingi sem fram hefur komið síðustu daga. Þannig verða breytingar í lýð­ræðis­sam­fé­lagi.“