Magnús Harðarson fer yfir árið í Kauphöllinni með Jóni G.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, fer yfir árið í Kauphöllinni í þætti Jóns G. í kvöld á Hringbraut. Hann segir að árið hafi einkennst af miklum uppgangi, stórauknum viðskiptum á hverjum degi, ánægjulegri og aukinni aðkomu almennings inn á markaðinn og fjórum nýskráningum - en skráning Íslandsbanka sl. vor er stærsta útboðið á Íslandi til þessa.

Meðalviðskipti á dag á árinu nema um 4,3 milljörðum króna miðað við 2,4 milljarða kr. á dag í fyrra. Þá hefur fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf í Kauphöllin margfaldast á aðeins tveimur árum, eða úr tæpum 9 þúsund árið 2019 í um 36 þúsund á þessu ári.

Hinn stóraukni áhugi almennings á hlutabréfum kom hvað fyrst fram í vel heppnuðu hlutafjárútboði Icelandair Group í fyrrahaust.

Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá í kvöld kl. 20 og sýndur á tveggja tíma fresti eftir það; auk þess sem hann er aðgengilegur í tímaflakki frá og með frumsýningunni í kvöld.