Loka vin­sælum ströndum á Spáni vegna mann­mergðar

Yfir­völd á Spáni lokuðu um helgina rúm­lega 50 ströndum vegna þess að of mikill fjöldi fólks kom þar saman. Þar á meðal voru strendur á vin­sælum ferða­manna­stöðum eins og Costa del Sol.

CO­VID-19 far­aldrinum er hvergi nærri lokið og óttuðust yfir­völd að svo stórar sam­komur myndu stuðla að frekari út­breiðslu kórónu­veirunnar sem veldur CO­VID-19. Alls var 55 ströndum lokað, að því er segir í frétt blaðsins Sur í Malaga-héraði sem In­dependent vitnar til.

Víða á Spáni, til dæmis á Benidorm, þurfa strand­gestir að bóka tíma á ströndinni til að koma í veg fyrir að of mikill fjöldi fólks safnist saman. Slík kerfi eru þó ekki í gildi alls staðar og því hætta á of fjöl­mennum sam­komum.

Kórónu­veirufaldurinn hefur látið að sér kveða í Anda­lúsíu, á suður­hluta Spánar, að undan­förnu en 90 manns sem höfðu tengsl við mið­stöð Rauða krossins í Malaga greindust með veiruna í liðinni viku.

Þá fyrir­skipuðu yfir­völd í A Marina í Galísíu, sýslu á norð­vestur­hluta Spánar, út­göngu­bann vegna skyndi­legrar fjölgunar til­fella þar.