Lok og læs um verslunar­manna­helgina: „Rosa­lega súrt að þurfa að loka“

English Pub hefur ekki getað opnað fyrir gestum vegna þess að ekki var hægt að skipta starfs­mönnum upp á ólík vak­ta­plön vegna sumar­leyfa eftir að CO­VID-19 smit kom upp hjá starfs­manni á English Pub og Dönsku kránni fyrir helgi.

Eig­andi staðanna beggja, Logi Helga­son, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að það sé mjög súrt að hafa ekki getað haft opið um verslunar­manna­helgina en helgin er þeirra helsta tekju­lind.

Logi segir að vegna þess að tekjurnar hafi verið það háar aðrar helgar falli hann ekki undir skil­yrði tekju­falls­styrkja og því sé að­stoð frá yfir­völdum engin við slíkar að­stæður.

„Þetta er það versta sem maður lendir í, að þurfa að loka fyrir­tæki og er mikill skaði fyrir okkur,“ segir Logi í sam­tali við Frétta­blaðið.

Logi segir starfs­menn fara í skimun í dag og að hann vonist til að geta opnað á morgun eftir að niður­stöður koma í ljós. „Ég vonast til þess að færri en fleiri hafi smitast og þá má maður ekki horfa á veltuna á móti,“ segir hann.

Fleiri fréttir