Loðnukavíar, laufabrauð með kryddjurtum og hreindýrasteik sem trylla bragðlaukana

Árið 2004 stofnuðu þau Sævar Guðjónsson og Berglind Steina Ingvarsdóttir fjölskyldufyrirtækið Ferðaþjónustuna Mjóeyri á Eskifirði sem hefur vaxið og dafnaða síðan. Árið 2008 fór Ferðaþjónustan Mjóeyri í samstarf við Sjóminjasafn Austurlands um rekstur Randulffs-sjóhúss sem er gamalt síldarsjóhús í eigu safnsins. Opnuðu Sævar og Berglind síðan veitingastað í sjóhúsinu árið 2011 sem er í rekstri enn þann dag í dag og er opinn alla daga frá júní til september og fyrir hópa þess utan. Sjöfn Þórðar heimsækir Berglindi í sjóhúsið og fær innsýn í sögu sjóhússins og áherslur veitingastaðarins sem hefur einstaka sérstöðu til að státa sig af.

M&H Randulfssjohús 6.jpeg

Í Randulffs-sjóhúsinu er áhersla lögð á að bjóða upp á ferskan mat úr firðinum samanber fisk og hreindýr en einnig hákarl, harðfisk og síld sem allt er framleitt á svæðinu. „Við vinnum náið með fyrirtækjum hér á staðnum eins og Eskju, Löxum, Fiskmarkað Austurlands, Beljanda brugghús og fleiri aðilum og leggjum mikla áherslu á að vera með lærða kokka og að vinna hráefnið frá grunni. Sævar sér einnig um að skaffa villibráðina á matseðlinum enda góður veiðimaður og má þar nefna hreindýr, gæs og svartfugl,“segir Berglind og er virkilega ánægð með viðtökurnar sem staðurinn hefur fengið frá upphafi. „Veitingarstaðurinn hefur gengið vel og hefur gestum fjölgað ár frá ári. Að sögn Berglindar voru Íslendingar mjög duglegir að sækja staðinn heim í sumar enda veðrið fyrir austan með ólíkindum gott.

M&H Randulffssjóhús 2.jpeg

Hreindýrasteikin líklega ódýrust á Eskifirði

Þegar Berglind er beðin að svipta hulunni af vinsælasta réttinum verður hún aðeins hugsi. „Fólki finnst mjög gaman að smakka loðnukavíar, held það sé hvergi annars staðar boðið upp á það. En með honum bjóðum við upp á laufabrauð með kryddjurtum. Hreindýra carbaccio er líka vinsælt sem forréttur og hreindýrasteikin á Randulffs er líklegast sú ódýrasta á Íslandi. Þá er laxinn og hlýrinn líka mjög vinsælir réttir og svo auðvitað skyrið okkar sem er alltaf jafn vinsælt með hvítu súkkulaði, rabbabara eða bláberjum eftir því hvenær að sumri er komið.“ Meira um lifandi og spennandi sælkera heimsókn Sjafnar í Randullffs-sjóhúsið í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut. Þátturinn er frum­sýndur kl. 19.00 í kvöld og fyrsta endur­sýning er kl. 21.00.

M&H Randulffssjóhús 3.jpeg

M&H Randulffssjóhús 6.jpeg