Lilja lofar – enn á ný!

Lilja Alfreðsdóttir ráðherra hefur málefni fjölmiðla áfram á sinni könnu þrátt fyrir alla hringavitleysuna varðandi endurskipulagningu og ástæðulausa uppstokkun í stjórnarráðinu. Hún mun því halda áfram að tala um rekstrarumhverfi fjölmiðla eins og hún gerði allt síðasta kjörtímabil. Mikið var þá talað en lítið gert.

Núna er þó búið að hrinda því í framkvæmd að framlög ríkisins til Ríkisútvarpsins voru hækkuð um nokkur hundruð milljónir í nýsamþykktum fjárlögum og nema 5.177 milljónum króna af skattfé borgaranna. Rökin fyrir þeirri hækkunvoru þau að laun hefðu hækkað hjá Ríkisútvarpinu og einnig kostnaður vegna aðkeypts efni frá útlöndum. Hins vegar eru framlög til allra annarra fjölmiðla í landinu LÆKKUÐ frá fyrra ári og eru nú einungis 384 milljónir. Ekki er vitað hver rökin eru fyrir þeirri lækkun. Trúlega halda stjórnvöld að laun og annar kostnaður einkarekinna fjölmiðla fari lækkandi í því verðbólguástandi sem ríkisstjórnin hefur skapað!

Þann 28. desember birti Morgunblaðið viðtal við Lilju þar sem hún lofaði öllu fögru og fullyrti að rekstrarumhverfi fjölmiðla yrði bætt. Sei, sei, þetta er nákvæmlega það sama og Lilja Alfreðsdóttir sagði margsinnis í viðtölum og umræðum allt síðasta kjörtímabil án þess að standa við þær yfirlýsingar. Er ástæða til að ætla að hún standi eitthvað frekar við slík loforð á þessu kjörtímabili en hinu síðasta? Við fyrstu sýn bendir fátt til þess. Engu að síður birti Morgunblaðið leiðara í vikunni þar sem loforð ráðherra voru gerð að umtalsefni og mátti skilja á höfundi leiðarans að hann hefði trú á því að við loforðin yrði staðið. Óskandi væri það – en kæmi á óvart. Hugsanlega hefur Morgunblaðið einhverjar viðbótarupplýsingar um þetta undir höndum.

Í ofangreindu viðtali er haft eftir Lilju að áfram sé þörf á stuðningi við fjölmiðla enda séu þeir mikilvægir fyrir upplýsinga- og fréttamiðlun, lýðræðislega umræðu og ekki síst íslenska tungu. Í ljósi þess er furðulegt að sjá stjórnvöld skerða framlög til einkarekinna fjölmiðla í fjárlögum 2022. Ekki rýmar það alveg við fagurgala ráðherrans! Að vísu er þess gætt að framlög hækki til Ríkisútvarpsins. Sennilega á það að duga til að vernda „mikilvægi fjölmiðla.“

Í viðtalinu segir Lilja orðrétt: „Framtíð fjölmiðla á Íslandi er í húfi og ég mun því á næstu mánuðum gera mjög ákveðna atlögu sem miðar að því að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Eitt er að breyta leikreglum þannig að Ríkisútvarpið gefi öðrum miðlum meira rými á auglýsingamarkaði.“

Gott og vel. En þetta er bara nákvæmlega það sama og Lilja Alfreðsdóttir lofaði að gera allt síðasta kjörtímabil án þess að standa við það. Hún gaf yfirlýsingar af þessu tagi í ræðum, viðtölum við fjölmiðla og samtölum við hagsmunaaðila allt kjörtímabilið. En ekkert gerðist. Einungis fögur loforð og innantómt tal. Mun það breytast núna?

Hví skyldi það breytast núna? Erfitt er að hafa trú á því eftir dapurlega reynslu á síðasta kjörtímabili.

Því hefur verið haldið fram að fjölmiðlar hafi látið Lilju plata sig með fagurgala allt síðasta kjörtímabil og því hafi hún fengið mun betri umfjöllun í fjölmiðlum en efni stóðu til.

Um það skal ekkert fullyrt hér. En víst er að fjölmiðlar munu ekki hlífa neinum sem segir ósatt eða reynir að afvegaleiða í umræðu um framtíð einkarekinna fjölmiðla á Íslandi á næstu vikum og mánuðum. Allt of mikið í er húfi og nú verður ekki bara kallað eftir orðum og fagurgala – nú verður kallað eftir efndum.

- Ólafur Arnarson.