Líf fordæmir myndband Bolla og Vigdísar: „Svo andstyggilegt, ómálefnalegt og siðlaust“

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, fordæmir myndband þar sem Dagur B. Eggerts­son borgarstjóri er sakaður um vald­níðslu, hroka, skulda­söfnun og bruðl.

Myndbandið er á vegum aðgerðarhópsins Björgum miðbænum, einn aðalstalsmaður þeirra er Bolli Kristinsson, fyrrverandi kaupmaður. Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, talar inn á myndbandið, hefur hún sagt að hún sé fullkomlega sammála því sem þar kemur fram.

Í viðtali við Fréttablaðið í desember sagði Dagur að Bolli bæri ábyrgð á myndbandinu. Sagði Dagur að sér væri brugðið. „Mér sýnist vera brotið í blað í þessari auglýsingu sem Bolli Kristinsson, fyrrverandi kaupmaður, ber ábyrgð á. Í fyrsta lagi að auðmaður fjármagni rógsherferð í krafti auðs til að sannfæra almenning um hluti sem eru rangir og hafa verið hraktir í öllum fréttum. Og hins vegar að Bolli skuli hafa geð í sér til að gera myndir af heimili mínu að aðalatriði á meðan dylgjur og rakalausar ásakanir eru lesnar yfir. Þetta er mínu mati ömurlegt og nýtt á Íslandi,“ sagði Dagur.

Líf fordæmir myndbandið í færslu á Twitter: „Þetta myndband er svo mikill viðbjóður. Svo andstyggilegt, ómálefnalegt og siðlaust. Fyrir utan afleiðingarnar sem það gæti haft í för með sér þegar kjörinn fulltrúi hegðar sér með þesssum óábyrga og ósvífna hætti; marklaust og siðspillt. Ég fordæmi þetta.“

Myndbandið má sjá hér að neðan: