Lausnin er fundin: sjálfstæðismenn ætla að verða manneskjulegri!

Allt hefur gengið mjög vel hjá Sjálfstæðisflokknum nema fylgið sem hefur hrunið. Flokkurinn hefur lagað erfið fjármál sín með því að fá aðra flokka á Alþingi til liðs við sig að hækka opinber framlög til stjórnmálaflokka um 300%. Nú skipta flokkarnir með sér meira en 800 milljónum króna í styrki til flokka á ári. Ekki er langt síðan þessi tala var rúmar 200 milljónir og þótti mörgum samt nóg um. 

Á meðan flokkarnir taka til sín fé með þessum hætti þurfa slasaðir og veikir að liggja á göngum bráðamóttöku Landsspítalans vegna þess að fjármálaráðherra segir að ekki séu til peningar. Og geðþekki heilbrigðisráðherrann bendir á að nýr spítali sé í byggingu og verði tilbúinn strax eftir fimm ár.  Og læknar skuli því ekki nefna neinn vanda á nafn.

Einn af þeim fáu sem virðast hafa haft áhyggjur af fylgishruni Sjálfstæðisflokksins er Styrmir Gunnarsson, fyrrum áhrifamaður í flokknum. Hann hefur skrifað fjölda greina um efnið og jafnvel bækur. Ekki er að sjá að þessi skrif hafi fengið mikla athygli. Alla vega hefur ekki verið farið að ráðum Styrmis. Sumir telja að hann sé bara gamall karl, aðrir nefna að hann sé enn að sakna tímans meðan staða hans var nokkur og blaðið sem hann stýrði mikið lesið. Sú var tíð.

En nú, þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins virðist vera orðið fast í 20%, þá telur hann lausnina vera fundna til að koma flokknum aftur upp í rúmlega 30% fylgi. Hann vísar í ræðu varaformanns flokksins sem talaði yfir samkomu eldri borgara í flokknum nýlega og sagði að talsmenn flokksins þyrftu að vera „manneskjulegri”. Hér er því ekki haldið fram að fundarmönnum hafi misheyrst en verkefnið virðist vera óyfirstíganlegt.

Hver ætlar að taka að sér að hjálpa þingmönnum flokksins að verða „manneskjulegir”, t.d. Óla Birni Kárasyni, Ásmundi Friðrikssyni, Brynjari Níelssyni og Páli Magnússyni, svo einhverjir séu nefndir.

Nei, þetta er ekki að fara að gerast.

Baráttan verður áfram kringum 20% múrinn.