Lára miðill spáir skandal í kringum Sigmund Davíð fyrir kosningar: „Ég get ekkert að þessu gert“

Spámiðillinn Lára Ólafsdóttir, oftast þekkt sem Lára miðill, segir að hún sjái fyrir að hneykslismál komi upp í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, fyrir kosningarnar í haust. Í þættinum Harmageddon í gær sagði Lára að um væri að ræða eitthvað nýtt atvik, þetta sé hvorki tengt Panamaskjölunum eða Klaustursmálinu.

„Þetta er einhver skandall,“ sagði Lára. „Eini aðilinn sem sækir að mér er hann Sigmundur. Það verður eitthvað í kringum hann. Ég finn þetta bara á mér, „ég get ekkert að þessu gert“. Það verður voðaleg reiði.“

Hún er viss um að þetta verði eitthvað nýtt mál. „Mér finnst þetta vera eitthvað núna,“ sagði Lára. Hún segir að spádómarnir komi einfaldlega til sín, bæði vakandi og í draumum. „Ég finn þetta á mér. Mér er tvisvar sinnum búin að dreyma Sigmund. Svo er mér fjórum sinnum búin að dreyma Bjarna Ben.“ Sýnirnar sem hún fær um Sigmund séu þess eðlis að eitthvað sé að gerast núna sem eigi eftir að koma í fréttir fyrir kosningar og valda reiði.

Lára spáir því að ríkisstjórnin haldi velli í kosningunum í haust. Hún spáir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verði þó ekki með í þeirri ríkisstjórn. Sú spá rættist reyndar fyrir nokkru þegar Kristján Þórs tilkynnti að hann myndi hætta. Þá spáir hún að Sósíalistaflokkurinn komist á þing. „Ég sé töluna þrjá,“ sagði Lára, bendir það til að þeir nái inn þremur þingmönnum.