Lára birtir skila­boð sem hún fékk frá ungum dreng: „Ég sé gríðar­lega mikið eftir þessu“

„Hringurinn í Hringa­dróttins­sögu hafði þá dökku hlið að gera alla þá sem hann snertu að þrælum sínum. Töfrar hringsins breyttu hugsun þeirra sem hand­fjötluðu hann. Nú dreifist um byggðina djásn með á­líka álög og hringurinn,“ segir Lára G. Sigurðar­dóttir, læknir og doktor í lýð­heilsu­vísindum.

Lára skrifar at­hyglis­verða grein sem birtist í Frétta­blaðinu í dag en þar fjallar hún um nikó­tín­púðana sem verið hafa tals­vert til um­ræðu að undan­förnu. Púðarnir, sem notaðir eru undir vör, hafa notið vaxandi vin­sælda hér á landi á kostnað ís­lenska nef­tóbaksins.

Lára segir að lög hafi verið sett um djásnið fyrir tveimur árum en þau hafi litlu breytt og hópurinn sem kemst á vald þess stækki hratt. Lára birtir skila­boð sem hún fékk frá ungum mennta­skóla­nemanda eftir að Lára hóf bar­áttu sína gegn púðunum. Í skila­boðunum sagði nemandinn ungi:

„Sæl, ég vil bara láta þig vita sem nemandi í mennta­skóla að ég er mjög á­nægður með að þú sért að segja frá þessum nikó­tín­pokum og berjast gegn veipinu. Ég sjálfur á­netjaðist hvoru tveggja þegar ég byrjaði í mennta­skóla og sé u.þ.b helming nem­enda nota annað hvort á hverjum einasta degi. Ég sé gríðar­lega mikið eftir þessu. Vonandi er hægt að tak­marka að­gengi jafn­aldra minna að þessu fíkni­efni sem nikó­tínið er.”

Lára segir að í stað þess að setja neyðar­lög til að vernda heilsu barna þá hafi nikó­tín­púðar fengið að hneppa ung­dóminn í álög.

„Miðað við fengna reynslu mun það hvorki tryggja heilsu né öryggi barna að fella nikó­tín­púða undir lög um raf­sígarettur, því sölu­aðilar eru í­trekað upp­vísir að brjóta þau lög. Það eina sem þessi lög hafa gert er að normalí­sera neyslu nikó­tíns. Mikið er í húfi því nikó­tín rænir ung­mennin heilsunni,“ segir Lára sem telur upp nokkur at­riði því til stað­festingar að nikó­tín eigi ekkert erindi til barna.

Hún bendir á að nikó­tín sé sterkt á­vana­bindandi eitur­efni, það geti verið ban­vænt, sér­stak­lega börnum undir fimm ára aldri. Það var áður notað sem skor­dýra­eitur en var bannað því það getur borist í mat­væli. Það breytir tauga­tengingum í ó­full­þroska heila sem ýtir undir skap­gerðar­breytingar, hvat­vísi og hömlu­leysi á­samt því að valda ein­beitingar­leysi og skerða lær­dóms­getu. Þá nefnir Lára að nikó­tín minnkar svefngæði. Það sem er öllu verra er hversu sterkir púðarnir eru, en dæmi eru um að einn púði inni­haldi þre­falt magn þess nikó­tíns sem finna má í sígarettum.

„Því hærri styrk­leiki, því fyrr verður barn háð nikó­tíni […] Frá­hvarf kemur fram 1-2 klst. eftir síðasta skammtinn því nikó­tín er ó­stöðugt efna­sam­band. Barn sem er háð nikó­tíni fer þannig allt að 15 sinnum í frá­hvörf á dag með til­heyrandi van­líðan, ó­ró­leika, eirðar­leysi, pirringi o.s.frv.“

Lára bendir svo á að tóbaks­fyrir­tækin séu á bak við nikó­tín­púðana og þau hafi ekki beint sýnt um­hyggju í garð barna. „Þvert á móti bjóða þau upp á nammi­bar með nikó­tíni. Þau vita að ef barn kemst á bragðið þá eru þau komin með við­skipta­vin fyrir lífs­tíð. Tóbaks­fyrir­tækin eru sannir sölu­menn dauðans því þau eru á­byrg fyrir 8 milljónum dauðs­falla ár­lega.“ Loks bendir hún á að hver sem er getur á­kveðið að selja nikó­tín; mat­vöru­búðirm net­verslanir eða Jón frændi.

„Munum að ekkert barn ætlar sér að á­netjast nikó­tíni. Fíknin byrjar venju­lega sem fikt, líkt og endur­speglast í til­vitnuninni að ofan. Við þurfum að taka á­byrgð, bæði for­eldrar og kjörnir leið­togar í þessu sam­fé­lagi, með því að knýja fram tak­markanir á að­gengi nikó­tíns til að forða börnunum okkar frá myrku hlið djásnsins.“