Lækna-Tómas segir Jón Steinar bulla: „Ég trúi því ekki sem ég er að heyra“

Það voru fjörugar umræður í Bítinu á Bylgjunni í morgun þegar Tómas Guðbjartsson læknir og Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður mættust til að ræða sóttvarnaraðgerðir.

Jón Steinar segir þær allt of harðar: „Ég er bara að tala um það að það liggur alveg fyrir að þeir sem fá þessa veiru í sig veikjast varla, það er fullt af fólki úti í bæ fullfrískt sem er skipað af yfirvöldum að halda sig heima og má ekki fara út af heimilum sínum. Samt er í raun og veru engin hætta á ferðum því að m.a.s. þeir sem fá veiruna í sig veikjast ekki,“ sagði hann.

Þá sé enginn vandi að fólk smiti aðra: „Er eitthvað að því? Það liggur fyrr núna og það eru tölur um það að þeir sem smitast þeir fá einhverja veiru í sig sem veldur engum veikindum.“

Lækna-Tómas var ekki sáttur: „Ég trúi því ekki sem ég er að heyra hérna frá fyrrverandi hæstaréttardómara. Að hann skuli tala svona og tali niður veikindi omicron og ég tala nú ekki um fyrri afbrigði,“ sagði hann.

„Þetta er bara algjör misskilningur að þetta sé einhver væg sýking og megi líkja við kvef eða inflúensu. Það sést bara uppi á spítala og er raunveruleikinn hjá okkur á hverjum einasta degi. Við erum með hundveikt fólk þar. Þannig að þetta er bara bull að tala þetta svona niður. Og vera að tala um eitthvert sovét-ofríki er bara að snúa út úr hlutunum.“

Jón Steinar sagði á að hlutfall þeirra sem þurfa að leita læknis vegna veirunnar sé komið niður í 0,2 prósent með omicron-afbrigðinu. Tómas sagði á móti að margir væru að fá langvarandi fylgikvilla af covid og sjúkdómurinn væri miklu skæðari öndunarfæraveira en kvef og inflúensa.