Kvartar undan okri Íslendinga á Spáni: „Nei, nú hringi ég í Útvarp Sögu!“

Óhætt er að segja að fjörugar umræður fari nú fram í hinum fjölmenna Facebook-hópi Íslendingar á Spáni Costa Blanca. Rúmlega 10 þúsund meðlimir eru í hópnum en eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða samræðuvettvang Íslendinga sem búsettir eru á eða hyggja á flutninga til Costa Blanca á Spáni.

Fjölmargir Íslendingar drýgja tekjur sínar með því að selja allskonar matvöru sem segja má að sé meitluð í íslenska þjóðarsál. Þetta er matvara sem getur verið erfitt að nálgast á Spáni, til dæmis lifrarpylsa, blóðmör, rúgbrauð, flatkökur og kindakæfa svo eitthvað sé nefnt.

Innleggið sem gerði allt vitlaust í grúppunni í gær sneri einmitt um meint okur Íslendinga á þessum vörum. Málshefjandi, kona að nafni Valgerður, sagði þá:

„Það er sorglegt hvað Íslendingar láta bjóða sér þvílíkt okur á matvöru sem framleidd er í heimahúsi og engir skattar eða gjöld greidd,“ sagði konan sem birti svo nokkur dæmi um mikinn verðmun að hennar mati.

Þannig sé hægt að fá ósoðna lifrarpylsu á 8 evrur hjá Íslendingum á Spáni en á Íslandi kosti hún 3,50 evrur. Rúgbrauðið kosti 8 evrur hjá Íslendingum á Spáni en jafnvirði rétt rúmlega 2 evra úti í búð á Íslandi. Þá kosti sviðasultan heilar 15 evrur hjá Íslendingum á Spáni en á Íslandi sé hægt að fá hana á 4,50 evrur. Þá sé hægt að fá 10 flatkökur í búð á Íslandi á 2 evrur en á Spáni kosti þær 10 evrur.

„Ég hélt að eldri borgarar og öryrkjar væru margir hverjir að flýja dýrtíðina á Íslandi en lætur svo bjóða sér þetta hjá okrurum. Ég gat bara ekki annað en upplýst um þetta,“ sagði Valgerður.

Færsla Valgerðar lagðist misvel í fólk og voru margir á því að hæpið væri að bera saman fjöldaframleiddan mat úti í búð á Íslandi við matvöru sem framleidd er í heimahúsi. Ein kona benti til dæmis á að mjög dýrt væri að framleiða rúgbrauð á Spáni þar sem láta þarf ofninn ganga yfir nótt -rafmagn er ekki beint ódýrt á Spáni.

„Sumt hráefni er heldur ekki fáanlegt hér og þarf því að redda því hingað út. Mér finnst alveg sjálfsagt að þetta yndislega fólk sem nennir að standa í þessu fyrir okkur hin fái eitthvað fyrir sína vinnu. Ef mig langar í eitthvað ekta íslenska lúxusvöru, því þetta er lúxusvara hér, þá er ég alveg til í að borga fyrir það,“ sagði konan sem uppskar hátt í 70 læk fyrir færsluna.

Aðrir slá á léttari strengi og gera góðlátlegt grín að innlegginu. „Helvítis ríkisstjórnin... og Trump... og Davíð Oddsson. Nei nú hringi ég í útvarp Sögu!!!,“ sagði í einni athugasemd.