Kristinn furðar sig á rannsókn lögreglunnar á meintu hryðjuverkatilræði

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, furðar sig á aðgerðum lögreglu í tengslum við rannsókn sem stendur yfir vegna gruns tveggja manna um skipulagningu hryðjuverka.

Hann segir um leið að ef þetta ætti að vera sögulína í handriti væri líklegast búið að reka höfundinn nema það ætti að endurgera kvikmynda Fargo með íslenskum blæ.

Tveir einstaklingar eru í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa prentað ólögleg skotvopn og lagt á ráð hryðjuverk hér á landi. Meintir hryðjuverkamenn hafa verið bendlaðir við öfgahópa erlendis.

„Tugir byssa sem lagt var hald á – heilt vopnabúr - reynast hafa verið löglega skráðar inn í landið. Lögreglan á í basli með að sannfæra dómara um að halda tveimur grunuðum í gæsluvarðhaldi. Búið er að ráðast til húsleitar á 17 stöðum, handtaka fjöldan allan af fólki og færa til yfirheyrslu en öllum hefur verið sleppt – nema þessum tveimur sem sitja næstu sjö daga í gæsluvarðhaldi. Grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk gegn helgustu véum þjóðarinnar, Alþingi og árshátíð lögreglumanna,“ segir Kristinn í færslu sem má lesa hér fyrir neðan.

„Gefið hefur verið í skyn að meintir hryðjuverkamenn tengist alþjóðlegum samtökum þjóðernisöfgasinna en ekki hefur verið kynnt neitt opinberlega sem rennir stoðum undir það. Því er að vísu fleygt að einhver hafi haft undir höndum lesefni frá Andreas Breivik.

Á meðan notar ráðherra lögreglunnar tækifærið og rökstyður bráða nauðsyn þess að lögreglan fái auknar eftirlitslausar njósnaheimildir gegn borgurum landsins og aukið svigrúm til að bera skotvopn. Það sé svo mikið að skotvopnum í umferð í skúmaskotum undirheima. Þar sé allt fljótandi í vopnum.

Víkur þá sögunni að einum umsvifamesta vopnaeiganda og vopnasala landsins. Nafn hans kemur upp við rannsókn hryðjuverkamálsins og húsleit gerð heima hjá honum. Í kjölfarið þarf Ríkislögreglustjórinn að segja sig frá öllum afskiptum af hryðjuverkarannsókninni enda er vopnasalinn faðir hennar.

Við þessum vendingum er brugðist með því að láta lögregluna hafa rafbyssur.

Ef þetta hefði verði lagt fram sem sögulína frá handritshöfundi væri viðkomandi umsvifalaust rekinn nema ætlunin væri að endurgera Fargo með íslensku ívafi.“