Kristín segir að þarna muni líklega gjósa næst

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri Náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að nokkrar eldstöðvar hafi að undanförnu gert sig líklegar til að gjósa. Kristín ræddi eldgosið í Meradölum í Bítinu á Bylgjunni í morgun og var meðal annars spurð hvar næsta gos verður.

Kristín segir að staðan í Meradölum sé svipuð og áður og gera megi ráð fyrir því að gosið muni malla áfram næstu vikur og mánuði. Kristín segir að við séum í raun heppin því litlar líkur séu á því að þetta gos ógni innviðum, miðað við þar hvar kvikugangurinn liggur.

„Krafturinn í þessu gosi er svona áþekkur og síðast sem þýðir að jafnvel þó þetta standi yfir í 6 mánuði þá erum við ekki að sjá þetta hraun fara neitt,“ sagði Kristín og bætti við að í raun mætti kalla þetta túristagos eins og gosið í Geldingadölum á síðasta ári. Benti hún á að gos á Reykjanesskaganum væru yfirleitt lítil.

Kristín sagði að eldgos kæmu á þriggja til fimm ára fresti hér á landi og staðreyndin væri sú að hér væru 32 virkar eldstöðvar. Þegar hún var spurð hvaða eldstöðvar væru mjög virkar nefndi hún til dæmis Öskju sem hafi sýnt hegðun að undanförnu umfram eðlilega bakgrunnsvirkni. Það sama mætti segja um Grímsvötn og Kötlu sem minnti á sig í sumar.

„Grímsvötn eru ólíkindatól eins og Hekla, geta farið í gang án mikils forboða. Hekla hefur hagað sér dálítið þannig,“ sagði Kristín sem tók fram að vel væri fylgst með og þétt net af mælum í kringum þessar eldstöðvar.

Þegar Kristín var spurð hreint út hvort Askja væri líkleg til að gjósa næst svaraði hún stutt og laggott: „Já.“