Kostnaðurinn við sýna­tökur gæti numið 158 milljónum fyrir tvær vikur

Það gæti kostað 158 milljónir króna ef 500 manns gangast undir sýna­töku á degi hverjum í tvær vikur eftir komuna til landsins um miðjan júní.

Þetta kemur fram í kostnaðar­mati sem finna má í nýrri skýrslu verk­efnis­stjórnar sem heil­brigðis­ráð­herra skipaði til að undir­búa fram­kvæmd vegna sýna­töku og greiningar á CO­VID-19 meðal far­þega sem koma til landsins. Stefnt er að því að hefja sýna­tökur þann 15. júní og eiga þær að standa í 2 vikur, en eftir það verður fram­haldið metið.

Er mark­miðið að sýni verði tekin úr öllum far­þegum sem koma til Ís­lands um Kefla­víkur­flug­völl og ekki kjósa að fara í sótt­kví eða fram­vísa vott­orði sem sótt­varna­læknir metur jafn­gilt.

Verkefnisstjórnin telur verk­efnið fram­kvæman­legt en leysa þurfi úr mörgum verk­þáttum áður en hægt verður að hefjast handa við skimun á landa­mærum.

Þannig er sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans ekki í stakk búin, miðað við gefnar for­sendur, að vinna nema 500 veiru­sýni á dag fyrir far­þega á verk­efnis­tímanum. Til að bæta af­kasta­getu þarf að bæta tækja­búnað, mönnun og að­stöðu. Miðað við fyrir­liggjandi á­ætlanir sé í fyrsta lagi hægt að auka af­kasta­getu í 1000 sýni á dag um miðjan júlí­mánuð.

Þá bendir hópurinn á að tryggja þurfi að nógu margir sýna­tökupinnar séu í landinu, en þeir eru í dag ekki nema 10.000.

„Sú ó­vissa sem ríkir um fjölda komu­far­þega á verk­efnis­tímabilinu gæti stofnað verk­efninu í hættu þar sem farið gæti verið fram úr af­kasta­getu þess og þeim fyrir­heitum að taka sýni hjá öllum komu­far­þegum varpað fyrir róða. Þetta á við hvort heldur sem er á skil­greindu tíma­bili eða mögu­legu fram­haldi þess þar sem væntingar um sýna­töku kunna að vera for­senda fyrir ferða­lagi til Ís­lands.“

Þá telur verk­efnis­stjórnin unnt að skila niður­stöðum á um það bil fimm klukku­stundum frá því síðasta sýni er tekið úr far­þegum við­komandi flug­vélar á Kefla­víkur­flug­velli frá morgni og fram eftir degi.

„Sýni sem berast […] eftir kl. 17 verða greind næsta morgun nema mönnun verði aukin. Fyrir­séð er að greining sýna frá öðrum landa­mæra­stöðvum gæti tekið lengri tíma, sér­stak­lega ef senda þarf sýnin lands­horna á milli.“

Í kostnaðar­matinu er gert ráð fyrir að há­marki 500 sýna­tökum á dag og þremur flug­vélum, miðað við af­kasta­getu sýkla- og veiru­fræði­deildar Land­spítalans. Gangi það eftir munu sýna­tökurnar í þessar tvær vikur kosta 158,7 milljónir króna. 200 sýni á dag myndu kosta 93 milljónir og 107 sýni myndu kosta 74,5 milljónir króna.

Hér má lesa skýrslu verkefnisstjórnar í heild sinni.