Kosningar í nánd

Flokkarnir hafa nú raðað á framboðslista sína álitlegu fólki. Allir gera sér dælt við ellilífeyrisþega, jaðarhópa og fræga fólkið til að leggja áherslu á yfirdrifið frjálslyndi. En hvar standa hetjur Íslendingasagna og Sturlungu?

Grettir Ásmundsson var maður einkaframtaksins, enda lynti honum ekki við nokkurn mann. Hann hefði setið á lista Miðflokksins á Norðurlandi og jafnframt handrukkað fyrir formanninn. Umhverfissinninn Gunnar á Hlíðarenda hefði fylgt VG og farið í framboð fyrir flokkinn. Hann hefði verið rekinn af listanum vegna orðróms um heimilisofbeldi.

Glæsimennið Sturla Sighvatsson var þekktur fyrir að veðja á rangan hest, svo að hann hefði endað í Viðreisn. Hallgerður langbrók og Guðrún Ósvífursdóttir hefðu komið á fót nýju kvennaframboði, langþreyttar á yfirgangi kalla. Samfylking og Miðflokkur hefðu árangurslaust reynt að fá þær sem skrautfjaðrir neðarlega á lista sína. Gissur Þorvaldsson bar kápuna ávallt á báðum öxlum og treysti engum. Hann hefði farið í framboð fyrir Framsóknarflokkinn á Suðurlandi. Hinn siðblindi Kolbeinn ungi Arnórsson hefði komist til áhrifa í Samfylkingunni. Hann hefði makað krókinn sem lögmaður beggja vegna borðsins og því alltaf hrósað sigri.

Skáldið Sturla Þórðarson hefði gengið í lið með Pírötum. Óskiljanleg stefnuskrá flokksins hefði fallið honum vel í geð. Stóreignamaðurinn Snorri Sturluson hefði fylgt Sósíalistum að máli, enda hentistefnumaður sem hugsaði einungis um eigin hag. Egill Skallagrímsson hefði kosið Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefði dásamað einkaframtakið og jafnframt blóðmjólkað styrkjakerfið til landbúnaðar og listamanna. Bergþóra á Bergþórshvoli var svo stjórnsöm að hún hefði gengið í Flokk fólksins.

Þetta fólk hefði hleypt lífi og fjöri í ótrúlega leiðinlega kosningabaráttu, enda glæsilegra og ákveðnara en núverandi frambjóðendur