Kosningar á þessu ári munu snúast um hreina vinstri stjórn eða Sjálfstæðisflokkinn

Samfylking og Píratar keppast nú við að lýsa því yfir að þeir vilji alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki eftir kosningarnar. Svo oft hefur þetta verið sagt opinberlega að flokkarnir sitja uppi með þessar yfirlýsingar og hafa þrengt kosti sína og möguleika á stjórnarsetu í haust nema þá í fjögurra til fimm flokka vinstri stjórn.
Þrjár skoðanakannanir birtust í desember sem mæla Samfylkingu með 13,8% upp í 17,2% eða á bilinu níu til ellefu þingmenn.

Vinstri græn mælast með fimm til átta þingmenn, Píratar oft með átta eða níu þingmenn en Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára eru stundum yfir lágmarki til að fá menn kjörna á þing og stundum undir.

Ætla má að Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn fái báðir fjóra menn kjörna á þing. Þessi framboð taka til sín hreint vinstra fylgi frá Vinstri grænum og og Samfylkingu sem hefur staðsett sig vinstra megin við Vinstri græna með ofurskattastefnu, kröfu um enn meiri ríkisútgjöld og mun grimmari andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokk en Vinstri grænir gera malandi af vellíðan innan veggja ríkisstjórnarinnar í skjóli og á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.

Kosningarnar síðar á þessu ári gætu t.d. fært þjóðinni þá niðurstöðu að Samfylking fengi tíu menn kjörna og bætti við sig þremur frá síðustu kosningum, Vinstri græn næðu sjö þingsætum og töpuðu fjórum, Píratar fengju sjö þingmenn og bættu við einum en Flokkur fólksins fengi fjóra menn kjörna eins og síðast. Loks næði Sósíalistaflokkur Gunnars Smára fjórum nýjum þingmönnum.

Samtals væru þetta 32 þingmenn sem dygði sem meirihluti á bak við fimm flokka vinstri stjórn.

Að sönnu yrði þarna skrautleg ríkisstjórn á ferð sem þyrfti væntanlega að “gera allt fyrir alla”, eins og Jón Gnarr lýsti yfir á sínum tíma þegar hann tók við embætti borgarstjóra, sælla minninga.

Vilji þjóðin öðru vísi ríkisstjórn en hér er lýst, þá þurfa aðrir flokkar að njóta mikils stuðnings í kosningunum. Þar er um að ræða Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn, Framsókn og Miðflokk.

Línur gætu orðið miklu skýrari í stjórnmálum hér á landi eftir kosningarnar 2021 en verið hefur með þeirri hálfgerðu neyðarstjórn sem senn rennur sitt skeið á enda.

Það passar engan vegin að sósíalistar og sjálfstæðismenn starfi saman í ríkisstjórn.

Það er hreint stílbrot!