Kona með hjarta úr gulli: Lærir nýjan brandara á hverjum degi til að gleðja gamla fólkið

Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, segir í nýjasta pistli sínum frá starfs­manni á hjúkrunar­heimili sem er með hjarta úr gulli. Það er ó­þarfi að orð­lengja þetta frekar. Við gefum Sól­veigu Önnu orðið:

„Ég ræddi við konu fyrir nokkrum dögum, fé­lags­mann í Eflingu sem vinnur við að að­stoða og hjálpa gömlu fólki. Ég spurði hana hvernig gengi.“

„Það gengur á­gæt­lega, en gamla fólkið er orðið þreytt. Allt fé­lags­starfið þeirra hefur fallið niður. Og þau borðuðu saman en nú er það ekki hægt. Sum fá enga heim­sókn nema mig. Þannig að ég læri núna nýjan brandara á hverjum degi. Á morgnana áður en ég fer að vinna skoða ég barandara­síður á Face­book og legg svo einn brandara á minnið. Það er gott fyrir okkur að hlæja saman.“

„En frá­bært hjá þér,“ sagði ég. „Við þurfum kannski að fara að berjast fyrir sér­stöku brandara­á­lagi í kjara­við­ræðum“.

Þegar hún sagði mér frá deginum sínum varð ég stolt og glöð yfir því að til­heyra sömu stétt og hún, stétt lág­launa­kvenna sem vinna við að annast annað lifandi fólk, en líka döpur; yfir þeim byrðum sem þessi hræði­legi far­aldur leggur á fólk, yfir því að í sam­fé­laginu okkar er gamalt fólk sem er al­gjörir ein­stæðingar og yfir því að konan sem lærir nú brandara á hverjum degi til að færa fólki að­eins meiri birtu í lífið sitt til­heyrir hópi þeirra lægst launuðu á ís­lenskum vinnu­markaði.

Konan sem ég talaði við vinnur hjá sveitar­fé­lagi á höfuð­borgar­svæðinu, þar sem há­launa­fólk fer með völd, há­launa­fólk sem trúir því að starfs­fólk sveitar­fé­laganna, fólkið í um­önnunar­störfunum, fólkið sem vinnur við að þrífa og ræsta, fólkið sem tekur sorpið „búi ekki til hag­vöxtinn“ eins og það var orðað á einum samninga­fundi af fínum manni fyrr í vetur.

Og þess vegna sé í lagi að hafa þau á smánar­legum launum. Og ekki að­eins í lagi, heldur ein­fald­lega skylda á­byrgra stjórn­enda sem vita hvað er þess virði að setja peninga í og hvað ekki.

Stundum finnst mér svo ó­trú­legt að mikill fjöldi þeirra sem sinna um­önnunar og til­finninga­vinnu á Ís­landi til­heyri hópi þeirra lægst launuðu á vinnu­markaðnum. En oftast finnst mér það bara rök­rétt niður­staða; mýkt, mildi og mann­úð hafa verið gerð út­læg úr öllum út­reikningum um hvað skiptir máli, það að sýna að þú hugsir stöku sinnum um eitt­hvað annað en hag­vöxtinn er ekki í boði, ef þú vilt ráða þarftu að sýna að þú vitir að niður­staðan í reiknings­dæminu verði alltaf að vera sú sama og alltaf fyrir­fram gefin: Þau sem vinna við að passa upp á annað lifandi fólk eru því sem næst einskis virði.“

Þá segir Sól­veig að lokum:

„Ég vona að við getum komist sem allra fyrst af þeim stað að sam­þykkja að þetta sé niður­staða hinna sam­fé­lags­legu út­reikninga. Það má ein­fald­lega ekki bíða lengur. Sjálfs­virðing okkar sem mann­fólks getur ekki leyft það.“