Kona í Hafnar­firði verður borin út vegna brota á hús­reglum

20. nóvember 2020
12:27
Fréttir & pistlar

Lands­réttur hefur úr­skurðað að Hafnar­fjarðar­bæ sé heimilt að fá konu borna út úr fé­lags­legu hús­næði sem hún hefur haft á leigu. Áður hafði Héraðs­dómur Reykja­ness komist að sömu niður­stöðu.

Konan fékk í­búðina leigða í gegnum Fjöl­skyldu­þjónustuna í Hafnar­firði þann 9. maí 2019 en ekki löngu síðar fór bænum að berast kvartanir frá hús­fé­laginu vegna brota konunnar á hús­reglum. Var meðal annars kvartað undan há­vaða vegna tón­listar og annars há­vaða frá íbúð konunnar.

Konan fékk senda á­minningu í á­byrgðar­pósti í ágúst 2019 vegna brota á um­gengnis­reglum. Kom þar fram að konan mætti eiga von á því að leigu­samningi yrði rift ef á­fram­hald yrði.

Þrátt fyrir þetta virðist konan ekki hafa bætt ráð sitt því í þrí­gang í októ­ber 2019 var kvartað undan há­vaða frá íbúð konunnar og um­gengni. Í kjöl­farið sendi bærinn konunni bréf þar sem fram kom að bærust fleiri kvartanir yrði húsa­leigu­samningi rift án frekari fyrir­vara. Þá var konan boðuð til við­tals við starfs­mann bæjarins þann 6. nóvember í fyrra en boðaði for­föll. Síðan þá hafi hún ekki mætt á þeim tíma sem boðaður var í stað þess fyrri.

Á­fram bárust kvartanir vegna konunnar í febrúar á þessu ári og fór svo að húsa­leigu­samningnum var rift í mars síðast­liðnum. Var þess krafist að konan myndi rýma hús­næðið og skila lyklum eigi síðar en 1. apríl 2020.

Konan varð ekki við þeim kröfum og í kjöl­farið fór bærinn fram á að konan yrði borin út.

Konan sagði fyrir dómi að ekki hafi verið til­efni til á­minninga né riftunar. Mót­mælti hún því að ó­næði hafi verið í húsinu af hennar völdum sem væru þess eðlis að um brot á hús­reglum eða lögum væri að ræða. Þá væri ekki hægt að byggja á „heima­til­búnum“ meintum kvörtunum og engar sannanir væru fyrir hendi um hinar meintu kvartanir.

Héraðs­dómur komst að þeirri niður­stöðu að bænum hafi verið heimilt að rifta leigu­samningi konunnar og vísaði meðal annars í dóma­for­dæmi Hæsta­réttar í máli frá 2006. Lands­réttur stað­festi sem fyrr segir þá niður­stöðu í vikunni og er bænum heimilt að fá konuna borna út úr í­búðinni með beinni að­farar­gerð.