Kolbrún mun aldrei gleyma sumu af því sem hún hefur séð í vinnunni

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari segir að hún mun aldrei gleyma sumu af því sem hún hefur séð í starfi sínu. Eitt af því sem Kolbrún hefur þurft að gera – og þarf því miður að gera – er að horfa á barnaníð.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Kolbrúnu í þættinum Okkar á milli á RÚV í gærkvöldi. Sigmar Guðmundsson ræðir þar við gesti undir fjögur augu en í gær var Kolbrún gestur þáttarins.

Eins og greint var frá í vikunni lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á mörg hundruð þúsund myndir og myndbönd af grófu kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Nokkrir karlmenn voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar hér á landi og eru tvö mál komin til ákæruvalds og er rannsókn á lokastigi í tveimur öðrum málum.

Kolbrún lýsti því almennt í þættinum hvernig það er að sinna þessu starfi, en ljóst er að það er ekki fyrir hvern sem er.

„Við þurfum að skoða barnaníðsefni til að vita hvað við erum með í höndunum,“ sagði Kolbrún og bætti við að refsingin fari ekki bara eftir magni efnis heldur einnig grófleika. Hún segir að oft á tíðum sé um að ræða skelfileg mál þar sem hreinlega er verið að nauðga börnum fyrir framan myndavél.

„Þetta er bara viðbjóðslegt. Ég held að margir hafi mynd af því að þetta sé svona ljósblátt Lolitu-klám þar sem sjáist í brjóst en þetta er alls ekki svona. Þetta eru viðbjóðsleg brot sem verið er að fremja gegn mjög ungum börnum.“

Kolbrún er þeirrar skoðunar að refsingar fyrir brot af þessu tagi sé allt of vægar. „Þarna er um að ræða raunveruleg börn sem verið er að misnota einhvers staðar úti í heimi.“

Hér er hægt að horfa á þáttinn frá því í gærkvöldi.