Kolbrún kemur Bjarna til varnar: „Það var engin ástæða fyrir hamagang“

Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, segir stjórnarandstöðuna geðstirða fyrir að gera athugasemdir við skíðaferð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Vill hún að stjórnarandstaðan taki sér málefnalegri mál til umfjöllunar. „Stjórnar­and­staðan hlýtur til dæmis að eiga merki­legri erindi við þjóðina en það að skammast þegar vinnu­fé­lagi tekur sér frí. Það var þing­mönnum stjórnar­and­stöðunnar til lítils sóma þegar þeir hófu upp öskur um leið og þeir upp­götvuðu að fjár­mála­ráð­herra landsins hafði farið utan í skíða­ferð í nokkra daga með fjöl­skyldu sinni,“ segir hún í leiðara blaðsins í dag.

„Talað var eins og fjár­mála­ráð­herra hefði brugðist skyldum sínum gagn­vart þjóð og þingi með nokkurra daga fjar­veru frá vinnu­stað. Öflugur stað­gengill hans var á þingi, þannig að það var ekki eins og ráð­herrann hefði skilið allt eftir í reiðu­leysi.“

Hún beinir einnig orðum sínum að fjölmiðlum sem hafi gaman af hávaða. „Vitan­lega komst stjórnar­and­staðan í fréttirnar, eins og hún vonaðist til. Full­trúar ríkis­stjórnarinnar voru látnir svara fyrir frí fjár­mála­ráð­herrans og gerðu það flestir glaðir í bragði enda liggur yfir­leitt mun betur á þeim en þing­mönnum stjórnar­and­stöðunnar,“ segir Kolbrún.

„Fjár­mála­ráð­herrann er víst á leið frá út­löndum eða kannski er hann ný­kominn til landsins. Hann á eftir að mæta hinni geð­stirðu stjórnar­and­stöðu og kann þá að velta fyrir sér hvort hann hefði ekki bara átt að fram­lengja fríið.“