Kolbeinn fluttur á Siglufjörð og leitar að vinnu: „Aldrei fyrr ákveðið hvað ég ætla að borða daginn eftir“

Kolbeinn Óttarsson Proppé er nú fluttur á Siglufjörð þar sem hann tekur því rólega. Kolbeinn var þingmaður Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili en hlaut ekki náð í prófkjörum flokksins fyrir síðustu kosningar.

Hann segir á Facebook í dag að lífið hafi löngum einkennst af því að skipta um takt.

„Að fara úr atinu og hraðanum sem einkenndi líf mitt í 101 og í kyrrð fjallanna og sjávarins á Siglufirði eru taktskipti í lagi. Ég er nú frekar fyrir að fara all in í því sem ég tek mér fyrir hendur, þannig að ég ákvað að taktskiptin yrðu algjör; úr hröðum 7/8 í hægan 4/4,“ segir hann. „Útvegaði mér frystikistu sem ég sæki mér reglulega föng í með dags fyrirvara (held ég hafi aldrei fyrr ákveðið hvað ég ætla að borða daginn eftir), hóf að baka brauð og kökur og í og með að gera tilraunir í eldhúsinu; elda ýmist flókna franska rétti eða soðninguna úr fiskbúðinni.“

Hefur hann einnig hjálpað til við bílaviðgerðir.

„Sú tilfinning hefur ágerst síðustu ár að ég sé að koma heim þegar ég kem á Siglufjörð. Hér á ég mína sögu, skemmtilega og viðburðaríka og ekki alla ætlaða til prentunar, eins og við Guðbrandur, Brandur lögga, rifjuðum upp, en hann þurfti að hafa afskipti af mér 13 ára gömlum og var kallaður Kolbeinsbani eftir það.“

Hann segir lífið öðruvísi á Siglufirði:

„Hér er annar taktur, öndunin verður öðruvísi og þó oft sé aksjón þá færist ró út í hverja frumu líkamans – nema þegar ég dett úr tveggja metra háum stiga á stétt, eins og ég ákvað að gera í gær. Siglufjörður er fagur, fólkið stórfínt, fjöllin faðma mann og sjórinn dillar manni. Næst á dagskrá er að koma sér meira í félagslífið; kirkjukórinn, björgunarsveit, badminton, kvæðamannafélag, allt togar þetta og hvers vegna ekki líka golf? Svo brestur á með skíðum innan tíðar.“

Kolbeinn er einnig að leita að vinnu en það er ekki efst í huganum:

„Já og svo mundast maður við að finna sér fasta vinnu eða lausbeislaðri verkefni. Og svo þarf auðvitað að baka meira.“