Kín­verjar mjög ó­sáttir við Morgun­blaðið: „Láti af ó­mak­legum á­rásum á Kína“

„Þessar full­yrðingar minna ó­þægi­lega á ó­mak­leg um­mæli frá vissum stjórn­mála­mönnum í Banda­ríkjunum sem hafa verið að út­hrópa Kína undan­farið og eðli­lega fara menn að velta fyrir sér af hverju þessi rit­stjórnar­grein var birt.“

Svo segir í yfir­lýsingu frá kín­verska sendi­ráðinu á Ís­landi sem birt er í Morgun­blaðinu í dag. Yfir­lýsingin var send út vegna rit­stjórnar­greinar sem birtist í Morgun­blaðinu á dögunum, en yfir­skrift greinarinnar var Hið kín­verska Tsjernó­byl? Þar var fjallað um kórónu­veirufar­aldurinn og full­yrt að „leyndar­hyggja kommún­ista­flokksins“ hefði af­hjúpað bresti stjórnar­farsins.

Þá var sagt að við­brögð kín­versku kommún­ista­stjórnarinnar við upp­hafi far­aldursins hafi minnt á þá tíma þegar Sovét­menn reyndu af­neita kjarn­orku­slysinu í Tsjernó­byl.

Ryki kastað í augu lesenda

Kín­versk yfir­völd eru mjög ó­sátt við þetta eins og kemur glögg­lega fram í yfir­lýsingunni sem birt er í Morgun­blaðinu í dag.

„Kína er ó­sátt við þessi um­mæli og and­æfir þeim kröftug­lega. Í greininni er CPC sakað um hæg og slæ­leg við­brögð við CO­VID-19- far­aldrinum og stað­hæft er að far­aldurinn vegna CO­VID-19 hefði senni­lega ekki orðið að al­heims­far­aldri ef kín­versk stjórn­völd hefðu sagt satt og rétt frá,“ segir í greininni en þar er at­burða­rásin síðustu vikur og mánuði rakin. Þá er vísað í bæði orð Donalds Trump Banda­ríkja­for­seta og Tedros Ghebreysus, fram­kvæmda­stjóra WHO, sem hrósuðu Kína fyrir við­brögðin í upp­hafi far­aldursins.

„Rit­stjórnar­greinin heldur því fram að Kín­verski kommún­ista­flokkurinn hafi verið að draga fram og dreifa fölskum kenningum um hvernig far­aldurinn hafi hafist og gripið til þess að senda er­lenda blaða­menn úr landi til að fela á­standið í eigin landi. Þessar á­sakanir ganga þvert á stað­reyndir og eru ein­göngu til þess fallnar að kasta ryki í augu les­enda.“


Ætlast ekki til þakklætis

Þá eru kín­versk yfir­völd ó­sátt við líkinguna við Tsjernó­byl.

„Rit­stjórnar­greinin ber einnig við­brögð Kín­verska kommún­ista­flokksins við far­aldrinum saman við við­brögð Sovét­ríkjanna sálugu í sam­bandi við kjarn­orku­slysið í Tsjernó­byl og kemur með ó­á­byrg um­mæli um kín­verska stjórn­mála­kerfið sem viðra úr­elt kalda­stríðs­við­horf og hug­mynda­fræði­lega for­dóma. Kína er ekki Sovét­ríkin sálugu, Kín­verski kommún­ista­flokkurinn er ekki Sovéski kommún­ista­flokkurinn.“

Í yfir­lýsingunni kemur fram að Kín­verjar hafi gripið til um­fangs­mestu, ströngustu og á­hrifa­ríkustu að­gerða sem völ var á til að berjast við far­aldurinn. Líf og heilsa al­mennings hefði verið sett í fyrsta sæti og árangurinn verið góður.

„Við ætlumst ekki til þakk­lætis frá al­þjóða­sam­fé­laginu en förum einungis fram á að njóta sann­mælis. Vírusar virða engin landa­mæri og eru þeir sam­eigin­legur ó­vinur alls mann­kyns. Á þessum við­sjár­verðu tímum ættum við að hlusta á dr. Tedros Adhanom Ghebreyesys sem sagði að „Núna væri tími fyrir stað­reyndir, en ekki ótta. Núna væri tími vísinda en ekki sögu­sagna, núna væri tími sam­einingar en ekki sundrungar.“ Við ættum ekki að eyða tíma í á­sakanir, hvorki í fjöl­miðlum né í stjórn­málum, heldur ættum við að ein­beita okkur að hinni sam­eigin­legu bar­áttu við CO­VID-19 far­aldurinn. Við vonum inni­lega að Morgun­blaðinu auðnist að verða víð­sýnna, virða stað­reyndir og láta af ó­mak­legum á­rásum á Kína.“