„Kenningin þykir nægjanlega biluð til að hægt sé að fá fjöldann til að trúa henni“

Staksteinar Morgunblaðsins vekja jafnan athygli og er dagurinn í dag engin undantekning í þeim efnum. Staksteinar eru ekki merktir höfundi en eins og landsmenn vita væntanlega flestir er Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára, ritstjóri.

Í dag er skrifað um kórónuveiruna sem veldur COVID-19, eða Wuhan-veiruna eins og staksteinahöfundur kýs að kalla hana. Látið er að því liggja að veiran hafi orðið til á rannsóknarstofu og einn æðsti yfirmaður bandarískra sóttvarna hafi komið þar nærri.

„Það er von að Wuhan-veiran setji menn í uppnám hvenær sem hún er nefnd. Seinast komst í hámæli að Anthony Fauci, æðsti maður bandarískra sóttvarna, hefði í mörg ár látið dæla ógrynni fjár í rannsóknarstofuna frægu í Wuhan!“

Staksteinahöfundur segir að mörgum hafi þótt þetta grunsamlegt og sagt að nú væri enn erfiðara að treysta „áróðurstilburðum Heilbrigðisstofunar SÞ“, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um að Kína hefði hvergi komið nærri upphafi faraldursins.

„En stofnunin hefur í samráði við Wuhan-mannskapinn ríghaldið í leðurblökukenninguna! Leðurblökunni er kennt um að hafa upp á eigin spýtur sett veröldina á hliðina og borið ábyrgð á dauða milljóna manna! Kenningin um leðurblökuna þykir nægjanlega biluð til að hægt sé að fá fjöldann til að trúa henni.“

Þá segir Staksteinahöfundur að á hverju einasta ári sé „gamla góða flensan“ sögð leggja upp frá Kína án atbeina leðurblökunnar með þeim afleiðingum að hundruð milljóna veikjast og milljónatugir veikburða deyja.

„Enginn hefur þó stöðu grunaðs eftir áratuga árásir. Ekki einu sinni leðurblaka. --- Fauciar um allan heim virðast sætta sig við að stundvísasta veira sögunnar mæti í vesturhluta heims hvert haust með afleitum afleiðingum. --- Kannski er kominn tími til að þeir ræði þetta mál í bæjarstjórn Kópavogs. Eða er það rangminni að Wuhanborg hafi verið vinabær Kópavogs í tæpa tvo áratugi?“