Katrín miður sín: „Ég sit og tárin renna niður vangann“ – Þetta verðum við að stoppa

„Ég sit og tárin renna niður vangann,“ segir Katrín Baldursdóttir, atvinnulífsfræðingur og fyrrverandi oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, á Facebook-síðu flokksins.

Þar deilir hún frásögn Soffíu H. Halldórudóttur sem var gestur í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu á dögunum. Mannlíf fjallaði um viðtalið en í því lýsti hún meðal annars afar erfiðri æsku sem einkenndist af ofbeldi; andlegu, líkamlegu og kynferðislegu sem hún og móðir hennar lifðu við af hendi föður hennar.

Lýsti hún því meðal annars að faðir hennar hafi lánað vinum sínum hana þegar hún var barn til þess eins að verða misnotuð. Frásögn Soffíu vakti talsverða athygli og ljóst að hún fékk mjög á Katrínu.

„Lítil börn sem elska foreldra sína endalaust, vilja knúsa þau, horfa á þau með aðdáun og treysta þeim fyrir lífi sínu. En síðan ryðst illskan, ómennskan, hrottinn og allt ógeðið yfir þessi ungu börn sem ekki getið varið sig. Saga Soffíu er svo óendanlega sorgleg. Og svona menn, eins og pabbi hennar, hafa fengið að ganga lausir um allar aldir og ennþá er réttarkerfið að verja menn eins og hann. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Við verðum að stoppa þetta. Taka þessa menn og loka þá inni. Verja börnin okkar. Ekki láta þau þurfa þola þetta endalaust. Grípa strax inn í,“ segir Katrín.

Í viðtalinu lýsti Soffía því að hún hafi aldrei lært að lifa í barnaheimi heldur þurft að alast upp í fullorðinsheimi frá því að hún var lítil. Segir Katrín að Soffía sé gott dæmi um hvernig saga ungra barna endar þegar komið er inn í fullorðinsár.

„Þetta er harmleikur. Alltof margar konur sem ég þekki, sem orðið hafa [fyrir] kynferðisofbeldi í æsku, glíma við endalausa vanlíðan, sársaukinn svíður alla daga, áföllin koma eitt af öðru og leitað er allra leiða til að lifa af. Vín eða fíkniefni eru mjög oft leiðin,“ segir Katrín og bætir við að allt of margir lifi þennan harmleik ekki af.

„Soffía er sigurvegari, en mikið svakalega hefur hún þurft að hafa fyrir því. Og sennilega fer öll orka hennar núna að lifa af og fá börnin sín aftur. Mikið dáist ég að ungu konunum sem nú berjast af alefli fyrir lífi okkar kvenna sem höfum upplifað kynferðisofbeldi í æsku og síðar á lífsleiðinni. Þetta er barátta upp á líf og dauða.“