Katrín með mikilvæga áminningu eftir fréttir dagsins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að smitfréttir dagsins minni okkur öll á að slaka ekki á þegar sóttvarnir eru annars vegar. Tveir einstaklingar hafa greinst með breska afbrigði COVID-19 utan sóttkvíar hér á landi undanfarna daga.

Einstaklingarnir tengjast ekki að öðru leyti en að búa í sama stigagangi fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu. Þykir það sýna hversu skæð veiran er og fljót hún getur verið að smitast á milli manna. Talið er að smitin megi rekja til einstaklings sem kom til landsins þann 26. febrúar síðastliðinn.

Katrín Jakobsdóttir skrifaði færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún minnti fólk á nauðsyn þess að slaka ekki á.

„Smitfréttir dagsins minna okkur öll á að slaka ekki á sóttvörnum. Nú er fjöldi fólks kominn í sóttkví og enn fleiri boðuð í sýnatöku. Það verður fylgst vel með þróun mála næstu daga og allt er gert til að ná utan um þetta smit. Svo er bara að gera það sem við höfum sýnt að skilar árangri; fylgjum reglunum um fjöldatakmarkanir og fjarlægðir og grímunotkun, þvoum okkur um hendur og sprittum okkur - fyrir okkur öll.“