Katrín getur engu lofað um hvernig flokks­fé­lagar hennar greiða at­kvæði um aðild Svía og Finna

Fyrir­huguð aðild Sví­þjóðar og Finn­lands að At­lands­hafs­banda­laginu hefur fengið mikinn stuðning í Evrópu en veldur einnig titringi. Þótt stuðningur við aðild hafi aukist innan um­sóknar­ríkjanna tveggja er málið stór­pólitískt. Svo er einnig hér á landi.

Þetta kemur fram í frétt Frétta­blaðsins en Finn­land og Sví­þjóð sóttu form­lega um aðild að At­lants­hafs­banda­laginu (NATO) í vikunni.

And­staða við aðild Ís­lands að NATO hefur verið grund­vallar­stefna Vinstri grænna frá stofnun flokksins. Þegar Norður-Makedónía gekk í NATO sátu þing­menn VG ýmist hjá í at­kvæða­greiðslunni eða voru fjar­verandi.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segist ætla styðja um­sókn Finna og Svía þegar greitt verður at­kvæði um um­sóknina á Al­þingi í dag. . Hún segir málið hafa þver­pólitískan stuðning hér­lendis og býst við að þingið af­greiði málið fljótt eftir að til­laga um það verður lögð fram á Al­þingi.

„Við stöndum með lýð­ræðis­legri niður­stöðu Finna og Svía og munum greiða fyrir þessu máli í gegnum Al­þingi,“ segir Katrín í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir málið hafa þver­pólitískan stuðning hér­lendis og býst við að þingið af­greiði málið fljótt eftir að til­laga um það verður lögð fram á Al­þingi.

Katrín segist hafa fullan skilning á að­stæðum Sví­þjóðar og Finn­lands og telur ekki að aðild þeirra að NATO muni spilla friðinum sem ríkt hefur á Norður­löndum.

„Ég tel þetta muni styrkja rödd Norður­landanna,“ segir Katrín og bendir á að sam­eigin­legt mark­mið Norður­landanna hefur verið að halda Norður­slóðum og Norður­löndunum sem lág­spennu­svæði.

Hægt er að lesa umfjöllun Fréttablaðsins hér.